Íslenski boltinn

„Ákváðum að taka á því allra versta“

Sindri Sverrisson skrifar
Þórður Ingason og Kjartan Henry Finnbogason fengu að líta rauða spjaldið eftir að hafa hagað sér verst af mörgum sem fóru yfir strikið í lok leiks í Vesturbænum.
Þórður Ingason og Kjartan Henry Finnbogason fengu að líta rauða spjaldið eftir að hafa hagað sér verst af mörgum sem fóru yfir strikið í lok leiks í Vesturbænum. Stöð 2 Sport

Þorvaldur Árnason dómari viðurkennir að hægt hefði verið að spjalda fleiri leikmenn en þá Kjartan Henry Finnbogason og Þórð Ingason, eftir stimpingarnar undir lok leiks KR og Víkings í Pepsi Max-deildinni í fótbolta.

Þorvaldur rak Kjartan af velli og sýndi Þórði, sem var varamarkvörður Víkings, einnig rauða spjaldið, í uppbótartíma leiksins. Ryskingarnar áttu sér stað í aðdraganda þess að Þorvaldur dæmdi svo vítaspyrnu á Víkinga sem Ingvar Jónsson varði og tryggði þar með Víkingi 2-1 sigur og sæti á toppi deildarinnar.

Hajrudin Cardaklija, markmannsþjálfari Víkings, fékk einnig rautt spjald þegar leiknum lauk. En fyrir hvað voru rauðu spjöldin?

„Þórður Ingason fyrir ofsafengna framkomu. Hann er að hita upp fyrir aftan markið og kemur inn og er í „fighting“, eins og við sjáum. Hann er ekki að hita upp heldur gera eitthvað allt annað, og við verðum að taka á því,“ sagði Þorvaldur í samtali við Rikka G en innslagið má sjá hér að neðan.

Klippa: Þorvaldur um rauðu spjöldin

Þorvaldur tók undir að hægt hefði verið að spjalda fleiri en taldi ekki rétt að gera það:

„Þetta er nú svona atvik þar sem maður þarf að velja það versta úr. Þarna hefðum við getað farið í „raðspjöld“ eins og var gert í gamla daga en við ákváðum að taka á því allra versta. Okkar mat var það að Þórður Ingason væri kominn langt út fyrir það sem hann á að gera, og Kjartan Henry hreinlega slær Þórð hnefahöggi,“ sagði Þorvaldur og bætti við:

„Við getum pikkað út fullt af mönnum þarna. Þarna eru menn á gulu spjaldi sem tóku þátt í einhverjum „fighting“ og hefðu getað fengið seinna gula. Á þessari stundu í leiknum ákváðum við að taka einn úr hvoru liði og þetta voru þeir verstu.“


Tengdar fréttir

„Ef ég ætlaði að kýla einhvern hefði þetta endað öðruvísi“

„Ég var ekki að sveifla hnefanum eða kýla neinn í andlitið. Stundum sér maður rautt en ég ætlaði mér bara að hrinda honum í burtu og gerði það óvarlega, ásamt fleirum í þessu atviki,“ segir Kjartan Henry Finnbogason um sinn þátt í ryskingunum í lok leik KR og Víkings í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×