Íslenski boltinn

Nýta mögulega hraðpróf til að fleiri geti notið dramatíkurinnar í Víkinni

Sindri Sverrisson skrifar
Víkingar hafa verið dyggilega studdir í síðustu leikjum á leið sinni á topp Pepsi Max-deildarinnar. Ein umferð er eftir.
Víkingar hafa verið dyggilega studdir í síðustu leikjum á leið sinni á topp Pepsi Max-deildarinnar. Ein umferð er eftir. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Víkingar vinna nú að því að sem flestir eigi þess kost að vera viðstaddir þegar þeir freista þess að landa sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í fótbolta í þrjátíu ár, á laugardaginn. Hugsanlegt er að leikur Víkings og Leiknis verði fyrsti „hraðprófaviðburðurinn“ á Íslandi.

Víkingur er á toppi Pepsi Max-deildar karla í fótbolta fyrir lokaumferðina á laugardaginn og nægir því að vinna Leikni til að verða Íslandsmeistari.

Víkingur greindi frá því á Twitter í dag að uppselt væri á leikinn en að unnið væri að því að fjölga miðum.

Sem stendur eru 1.000 manns, 16 ára og eldri, með miða á leikinn því Víkingar geta skipt áhorfendasvæði sínu upp í tvö 500 manna sóttvarnahólf. Börn fædd 2006 og síðar eru ekki talin með í reglum um samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins.

Að hámarki 500 manns megi koma saman í rými á knattspyrnuleikjum utanhúss án annarra skilyrða. 

Mögulega 1.500 manns auk barna

Með notkun hraðprófa geta hins vegar 1.500 manns komið saman í einu rými. Það er möguleiki sem Víkingar eru nú að skoða:

„Þá gæti þetta orðið eitt hólf fyrir 1.500 manns, auk krakka. Við yrðum þá með bretti og slíkt til að búa til stæði fyrir 500 manns. Ég held að við yrðum þá fyrsti viðburðurinn til að nýta þessi hraðpróf,“ segir Haraldur Haraldsson, formaður knattspyrnudeildar Víkings.

Verði þetta raunin munu gestir á Víkingsvelli þurfa að sýna forsjálni og fara í hraðpróf seint á fimmtudaginn, á föstudag eða snemma laugardags (innan við 48 klukkustundum fyrir leik) og sýna svo neikvæða niðurstöðu við komuna á Víkingsvöll á laugardag.

Ef allt gengur að óskum hjá Víkingum er því mögulegt að hátt í 2.000 manns, að börnum meðtöldum, sjái liðið landa langþráðum Íslandsmeistaratitli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×