Erlent

Fá­mennt og tíðinda­lítið á mót­mælunum í Was­hington

Þorgils Jónsson skrifar
Fáir mættu í gær á mótmælin til stuðnings rósturseggjum sem gerðu aðsúg að þinghúsinu í Washingtonborg í upphafi árs.
Fáir mættu í gær á mótmælin til stuðnings rósturseggjum sem gerðu aðsúg að þinghúsinu í Washingtonborg í upphafi árs.

Svo fór sem margan grunaði að mótmælin í Washingtonborg í gær voru fámenn og tíðindalítil.

Lögregla tefldi þó ekki á tvær hættur í aðdraganda, heldur var með mikinn viðbúnað, minnug óeirðanna sem brutust út hinn 6. janúar síðastliðinn þegar þúsundir stuðningsfólks Donalds Trump gerðu aðsúg að þinghúsinu. Fjölmennt lögreglulið var til reiðu að þessu sinni og varnargirðingar höfðu verið reistar utan um þinghúsið.

Skipuleggjendur í gær efndu einmitt til mótmælanna til stuðnings þeim óeirðaseggjum sem sitja inni eða hafa verið ákærð fyrir þátttöku sína í mótmælunum í janúar.

Forystufólk af hægri vængnum hafði gert lítið úr fyrirhugaðri samkomu í gær og Trump sjálfur var aldrei væntanlegur. Matt Braynard, sem skipulagði mótmælin gagnrýndi kjörna fulltrúa Repúblikana fyrir að ljá málstaðnum ekki stuðning.

And-mótmælendur söfnuðust einnig saman á svæðinu við þinghúsið, en ekki kom til alvarlegra átaka. Einn var handtekinn úr þeim ranni og tveir úr hópi mótmælendanna, annar var með hníf, en hinn var grunaður um að vera með skotvopn á sér.

Eins og er eru 63 í haldi fyrir framgang sinn í óeirðunum 6. janúar og rúmlega 600 hafa verið ákærð. Tugir lögreglumanna slösuðust við skyldustörf og einn lést daginn eftir. Fjórir lögreglumenn hafa síðar svipt sig lífi, en einn mótmælandi var skotinn til bana inni í þinghúsinu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×