Íslenski boltinn

Arnar um stór­leiki dagsins: Það gerast skrítnir hlutir þegar þú nálgast titil

Runólfur Trausti Þórhallsson og Svava Kristín Gretarsdóttir skrifa
Víkingar eru í baráttu á tveimur vígstöðvum.
Víkingar eru í baráttu á tveimur vígstöðvum. Vísir/Hulda Margrét

Víkingar eiga enn möguleika á að vinna tvennuna en liðið er komið í undanúrslit í bikar og er svo í öðru sæti Pepsi Max deildar karla í fótbolta þegar tvær umferðir á eftir. Það er því allt undir í dag.

Víkingar fara í heimsókn vestur í bæ og mæta þar KR á meðan Breiðablik heimsækir FH í Kaplakrika. Báðir leikirnir verða sýndir í beinni útsendingu á rásum Stöðvar 2 Sport.

„Þetta verður spennuþrunginn dagur held ég. Bæði Breiðablik og við eigum mjög erfiða útileiki á móti klúbbum sem eru með sterka hefð og stolt líka. Held að hvorugt FH og KR sé tilbúið að fá okkur í heimsókn og láta okkur vera fagna eitt eða neitt,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, í viðtali við Vísi fyrir þennan magnaða dag í Pepsi Max deild karla.

„Við þurfum að vera mjög einbeittir á okkar verkefni og vera ekki með hausinn í því sem er að gerast í Hafnafirði. Þurfum að vera eins einbeittir og við höfum verið í síðustu 7-8 leikjum. Við erum á mjög góðu „rönni“ svo ég megi sletta aðeins og erum búnir að vinna sex eða sjö leiki í röð, sem er örugglega félagsmet hérna í Víkinni held ég.“

„Þurfum að einbeita okkur að okkar leik en samt stjórna spennustiginu sem verður örugglega mjög mikið á morgun.“

Klippa: Arnar Gunnlaugs um stórleiki dagsins

Arnar finnur fyrir spennunni

„Klárlega, það er af hinu góða. Segi alltaf að það er mikill munur á spennu og stressi. Spenna er góð, það er gott að hafa góða spennu svo framarlega sem þú lætur ekki stressið yfir yfirstíga þig.“

„Það hafa ekki verið merki þess undanfarið nema kannski á móti Fylki í bikarnum. Kalla það ekki stress, frekar ákveðið vanmat sem má alls ekki gerast í neinum einasta leik. Spennustigið er búið að vera mjög vel stillt undanfarið og ég hef enga trú á að það breytist eitthvað en svo gerast skrítnir hlutir þegar – maður þekkti það sjálfur sem leikmaður – þú nálgast titil. Þá gerast stórskrítnir hlutir, það er mitt verkefni að sjá til þess að við erum vel stemmdir.“

„Það er enginn okkar að fara vera með útvarp í gangi til að fylgjast með þeim leik. Við ætlum að einbeita okkur að okkar verkefni og svo kemur það bara í ljós. Vonandi náum við að halda spennunni eitthvað aðeins áfram fram í lokaumferð,“ sagði Arnar um leik FH og Breiðabliks sem verður leikinn á sama tíma.

Góð lið þurfa líka á heppni að halda“

„Nei ég held ekki, held þetta hafi verið víti til varnaðar. Það er bara í þessum fótbolta – sérstaklega þegar þú lið úr efstu deild þó það sé í rauninni sama við hvaða lið þú spilar við – ef þú ert ekki 100 prósent á þínum dag þá geta hlutirnir farið illa.“

„Við vorum bara heppnir á móti Fylki, sem fylgir oft liðum sem hefur gengið vel og fylgir ekki liðum illa sem gengur illa. Þegar þú ert um borð í heppnislestinni þá verður þú bara að taka það ferðalag á enda. Góð lið þurfa líka á heppni að halda til að fara alla leið en við erum inni í baráttu um tvo titla og strákarnir þurfa að njóta þess líka. Það eru forréttindi að vera í þessu. Vonandi eru fjórir úrslitaleikir eftir fyrir okkur,“ sagði Arnar að endingu.

Leikir Víkings og Breiðabliks verða sýndir í beinni á rásum Stöðvar 2 Sport. Upphitun hefst klukkan 15.45 og leikirnir síðan klukkan 16.15. Farið verður yfir báða leiki, sama hver niðurstaða þeirra verður, í Pepsi Max Stúkunni klukkan 20.30.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.