Íslenski boltinn

Kári ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi og Arnór Borg skrifar undir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Árnason og félagar í Víkingi eiga enn möguleika á að vinna tvo titla á þessu tímabili.
Kári Árnason og félagar í Víkingi eiga enn möguleika á að vinna tvo titla á þessu tímabili. Vísir/Hulda Margrét

Landsliðsmiðvörðurinn Kári Árnason er að kveðja knattspyrnulið Víkinga eftir tímabilið en hann er alls ekki að hætta að þjónusta Fossvogsliðið.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Vísis þá hefur Kári Árnason verið ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi og þá mun Arnór Borg Guðjohnsen skrifa undir leikmannasamning við Víking á blaðamannafundi í hádeginu. Báðir verða tilkynntir á þessum fundi.

Arnór Borg er að renna út á samningi hjá Fylki en hann getur ekki klárað tímabilið vegna nárameiðsla.

Kári Árnason er einn af bestu sonum Víkings en hann fór snemma út í atvinnumennsku en snéri síðan heim í Víkina og hefur spilað með Víkingsliðinu undanfarin þrjú tímabil.

Víkingar urðu bikarmeistarar 2019 á hans fyrsta tímabili í endurkomunni en þeir eru í harðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn í ár og komnir í undanúrslit bikarkeppninnar.

Kári lék á dögunum sinn nítugasta A-landsleik og var þá með fyrirliðabandið í tíunda sinn. Hann lék sinn fyrsta landsleik fyrir meira en sextán árum síðan.

Á fimmtán árum sínum í atvinnumennsku þá spilaði Kári í Svíþjóð, í Danmörku, í Englandi, í Skotlandi, á Kýpur og í Tyrklandi. Kári hefur á þessum tíma öðlast mikla reynslu úr heimi fótboltans og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig innan sem utan vallar.

Víkingar voru ekki eina félagið sem var á eftir Arnóri Borg en samkvæmt heimildum Vísis þá reyndu Blikar einnig að fá hann til sín.

Arnór Borg er 21 árs gamall og hefur skorað 3 mörk í 28 leikjum fyrir Fylki í Pepsi Max deild karla. Í sumar er hann með 1 mark og 1 stoðsendingu í 11 leikjum en hann hefur verið að spila meiddur síðan í apríl og missti mikið úr vegna kviðslits við nára.

Arnór fór í aðgerð í London á dögunum og ætti að geta verið kominn aftur af stað eftir mánuð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.