Enski boltinn

Fót­brotnaði í leik í ensku kvenna­deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Læknar Manchester City huga að Esme Morgan sem liggur sárþjáð á grasinu.
Læknar Manchester City huga að Esme Morgan sem liggur sárþjáð á grasinu. Getty/Visionhaus

Varnarmaður Manchester City meiddist illa í leik á móti Tottenham í úrvalsdeild kvenna í fyrrakvöld.

Hin tvítuga Esme Morgan hjá Manchester City var borin af velli eftir slæmt samstuð við Tottenham leikmanninn Ashleigh Neville.

Eftir leikmenn staðfesti Manchester City að Morgan hefði fótbrotnað í samstuðinu og væri á leiðinni í aðgerð á hægri fæti.

„Varnarmaðurinn mun fara fljótlega í aðgerð á hægri fæti og síðan tekur við endurhæfing á vegum félagsins,“ sagði í yfirlýsingu frá Manchester City.

„Allir hjá City óska Esme alls hins besta í endurhæfingunni og við munum gefa henni allan þann stuðning sem hún þarf,“ sagði ennfremur í tilkynningu City.

Steph Houghton, fyrirliði Manchester City og enska landsliðsins hafði áhyggjur af henni.

„Við athuguðum með hana í hálfleik og svo auðvitað eftir leikinn líka. Við höfum síðan verið í sambandi við hana í gegnum skilaboðakerfin til að fá að vita það hvernig hún hefur það,“ sagði Steph Houghton.

„Hún verður pottþétt enskur landsleikmaður. Hún er svo einbeitt, í svo góðu formi og elskar að spila fótbolta. Hún er líka svo klár. Ég elska að hafa hana sem hægri bakvörð við hlið mér. Hún hefur staðið sig mjög vel í síðustu þremur til fjórum leikjum og hún á framtíðina fyrir sér. Vonandi eru meiðslin ekki of slæm og að við sjáum hana sem fyrst aftur inn á grasinu,“ sagði Houghton.

Esme Morgan heldur því upp á 21. árs afmælið sitt á meiðslalistanum en hún á afmæli í næsta mánuði. Hún er uppalin hjá Manchester City. Hún kom aftur í City á síðasta tímabili eftir að hafa verið lánuð til Everton 2019-20 tímabilið.

Morgan hefur spilað fyrir yngri landslið Englending en hefur ekki verið valin í A-landsliðið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.