Íslenski boltinn

Tindastóll þarf hálfgert kraftaverk

Sindri Sverrisson skrifar
Tindastólskonur þurfa á lygilegum viðsnúningi að halda í dag en möguleikinn er til staðar á að liðið haldi sér uppi.
Tindastólskonur þurfa á lygilegum viðsnúningi að halda í dag en möguleikinn er til staðar á að liðið haldi sér uppi. vísir/Hulda Margrét

Keppni í Pepsi Max-deild kvenna lýkur í dag með þremur leikjum. Valur fékk Íslandsmeistarabikarinn afhentan á föstudaginn og Fylkir fellur en það skýrist í dag hvaða lið fer niður með Fylkiskonum.

Nýliðarnir í deildinni, Keflavík og Tindastóll, eru einu liðin sem eiga á hættu að fylgja Fylki niður. Keflvíkingar eru engu að síður í mjög góðum málum því þeir eru þremur stigum fyrir ofan Tindastól auk þess sem sex mörkum munar á markatölu liðanna.

Tindastóll þarf því að vinna þriggja marka sigur á Stjörnunni og treysta á að Keflavík tapi á Akureyri gegn Þór/KA með þriggja marka mun (að sama skapi myndi duga Tindastóli að vinna 4-0 ef Þór/KA ynni 2-0, 5-0 ef að Þór/KA ynni 1-0, og svo framvegis).

Síðustu leikir mótsins:

  • 14.00 Þór/KA - Keflavík
  • 14.00 Tindastóll - Stjarnan (beint á Stöð 2 Sport)
  • 14.00 Breiðablik - Þróttur R.

Magnaður lokasprettur hefur komið Keflavík í þessa stöðu en liðið hefur unnið útisigra í Vestmannaeyjum og á Sauðárkróki, og gert jafntefli við tvö bestu lið deildarinnar; Breiðablik og Val, í síðustu fjórum leikjum. Tindastóll hélt lífi í vonum sínum með 3-1 útisigri gegn Selfossi í síðustu umferð.

Agla María Albertsdóttir á enn möguleika á markadrottningartitlinum en hún á leik með Breiðablik gegn Þrótti. Agla er með 11 mörk, tveimur færri en Selfyssingurinn Brenna Lovera sem hefur lokið keppni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.