Fótbolti

Flug­­vél Þýska­lands þurfti ó­vænt að lenda í Skot­landi | Ný vél á leiðinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þjóðverjar léku lausum hala á Laugardalsvelli í gærkvöld.
Þjóðverjar léku lausum hala á Laugardalsvelli í gærkvöld. Vísir/Hulda Margrét

Þýska landsliðið þurfti óvænt að lenda í Edinborg í Skotlandi á leið sinni frá Íslandi eftir leik liðanna í undankeppni HM í fótbolta. Ekki kemur fram af hverju þurfti að lenda en yfirfara þurfti flugvélina áður en hún fær að halda aftur af stað til Þýskalands.

Það gekk nær allt upp er þýska landsliðið spilaði það íslenska sundur og saman í undankeppni HM á Laugardalsvelli í gær. Lokatölur 4-0 og Þjóðverjar þar með búnir að vinna alla þrjá leikina undir stjórn nýs þjálfara. Heimferðin var hins vegar aðeins vandasamari.

Eftir leikinn á Laugardalsvelli hélt þýska liðið upp á Keflavíkurflugvöll og átti flug heim á leið klukkan 01.00 í nótt, aðfaranótt fimmtudags. Samkvæmt þýska fjölmiðlinum Bild tók vél þýska liðsins óvænt snarpa beygju rétt yfir Bretlandseyjum og lenti í Edinborg, höfuðborg Skotlands.

„Ákveðið var að liðið myndi stoppa í Edinborg þar sem flugvél okkar verður yfirfarin og nokkrar öryggisprófanir gerðar. Við erum í góðu yfirlæti á flugstöðinni í Edinborg og öllum líður vel. Við bíðum frekari fregna,“ segir í fréttatilkynningu DFB, þýska knattspyrnusambandsins.

Þýska sambandið hefur nú rétt í þessu gefið það út að ný flugvél sé á leiðinni til að sækja leikmenn og starfslið svo ljóst er að eitthvað hefur verið að vélinni sem átti að fljúga með liðið heim.


Tengdar fréttir

Hannes Þór hættur í landsliðinu

Hannes Þór Halldórsson spilaði í kvöld sinn síðasta landsleik á ferlinum. Hann tilkynnti það í sjónvarpsviðtali eftir leik.

„Úr­slitin segja svo sem allt“

„Úrslitin segja svo sem allt. Þeir eru góðir en það er fullmikill skellur að fá svona mörg mörk í andlitið,“ sagði Albert Guðmundsson, framherji Íslands í kvöld, að loknu 4-0 tapi Íslands gegn Þýskalandi í undankeppni HM.

„Ef Arnar vill hafa mig þá er ég til í að klára þessa keppni“

Birkir Már Sævarsson, bakvörður íslenska landsliðsins, var svekktur með 4-0 tap liðsins gegn Þjóðverjum. Hann segir að það sé erfitt að spila á móti jafn sterku liði og Þjóðverjum, og að þeir refsi þér um leið og þú gleymir þér í eina millisekúndu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×