Fótbolti

„Ef Arnar vill hafa mig þá er ég til í að klára þessa keppni“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Birkir Már Sævarsson í baráttu við Leroy Sane í leiknum í kvöld.
Birkir Már Sævarsson í baráttu við Leroy Sane í leiknum í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Birkir Már Sævarsson, bakvörður íslenska landsliðsins, var svekktur með 4-0 tap liðsins gegn Þjóðverjum. Hann segir að það sé erfitt að spila á móti jafn sterku liði og Þjóðverjum, og að þeir refsi þér um leið og þú gleymir þér í eina millisekúndu.

„Þetta var mjög erfitt, það er bara drullu erfitt að spila á móti Þjóðverjum,“ sagði Birkir Már eftir tapið í kvöld.

„Þeir eru með virkilega gott lið og það má ekki gleyma sér í millisekúndu því þá eru þeir búnir að stinga sér í gegn eða komnir með eitthvað þríhyrnigsspil. Þetta var erfitt, en við áttum samt einhverja smá spretti inn á milli.“

„Í fyrri hálfleik sköpuðu þeir ekkert rosalega mikið þó að þeir væru mikið með boltann. Þetta var kannski mikið af hálffærum. En svo í seinni hálfleik komu færi og það fauk allavega í mig þegar að leið á leikinn.“

Klippa: Birkir Már

Eins og Birkir segir, fengu Þjóðverjar mikið af færum í seinni hálfleik og hefðu getað skorað fleiri mörk. Birkir segir að varnarleikur liðsins hafi ekki verið sá besti og að erfitt sé að eiga við jafn gott lið og Þjóðverjana.

„Við vorum kannski aðeins farnir að færa okkur framar og reyna að gera eitthvað í seinni hálfleik. Þá náttúrulega opnast svæði af því að við þurftum að taka sénsa eins og í síðasta leik.“

„Gott lið eins og Þjóðverjarnir þeir finna glufurnar. Þeir eru með mjög fljóta leikmenn og við vorum eiginlega alltaf í undirtölu. Það er bara erfitt að eiga við þá, sérstakelga ef maður ætlar að taka einhverja sénsa til að skora.“

Birkir segir það sé sárt að horfa á stöðu Íslands í riðlinum, sérstaklega í ljósi þess að liðið sá möguleika þegar dregið var í riðlinum.

„Þegar að það var dregið þá sá maður klárlega möguleika á að komast áfram. Því miður höfum við ekki náð í úrslit, en ég hef trú á því að þegar að þetta lið er búið að spila nokkra leiki saman og ungu strákarnir eru komnir aðeins betur inn í þetta þá fari úrslitin að detta.“

„Ég vona bara að í næsta mánuði, þá erum við enn og aftur með tvo heimaleiki, að við séum búnir að slípa okkur það vel saman að við náum bara í eins mörg stig og mögulegt er.“

Birkir Már og nafni hans Bjarnason eru nú báðir komnir yfir hundrað leiki með íslenska landsliðinu. Birkir segist ætla að klára þessa leiki sem eftir eru á árinu og sjá svo til með framhaldið.

„Ég ætla að klára þessa keppni allavega og svo ætla ég bara að leggjast undir feld og skoða þetta. Ég ætla allavega að klára þessa keppni. Ég ætla að byrja á því að lofa því, ef Arnar vill hafa mig það er að segja, þá er ég til í að klára þessa keppni.“


Tengdar fréttir

Hannes Þór hættur í landsliðinu

Hannes Þór Halldórsson spilaði í kvöld sinn síðasta landsleik á ferlinum. Hann tilkynnti það í sjónvarpsviðtali eftir leik.

Albert Guð­munds­son: Úr­slitin segja svo sem allt

„Úrslitin segja svo sem allt. Þeir eru góðir en það er fullmikill skellur að fá svona mörg mörk í andlitið,“ sagði Albert Guðmundsson, framherji Íslands í kvöld, að loknu 4-0 tapi Íslands gegn Þýskalandi í undankeppni HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×