Innlent

Skilja ekkert í orðum Katrínar um Hvalár­virkjun

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Ásbjörn Blöndal er formaður stjórnar VesturVerks og framkvæmdastjóri þróunarsviðs HS Orku.
Ásbjörn Blöndal er formaður stjórnar VesturVerks og framkvæmdastjóri þróunarsviðs HS Orku. aðsend/egill

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vonar að Hvalárvirkjun verði ekki að veruleika og segir framkvæmdina eins og hún líti út í dag umtalsvert stærri en þá sem var á teikniborðinu þegar hún var færð í nýtingarflokk rammaáætlunar. Talsmenn VesturVerks skilja ekkert í orðum forsætisráðherrans.

„Hvalárvirkjun er gott dæmi um að rammaáætlun sem þingið samþykkir en snýst alltaf um samanburð á virkjanakostum. Síðan þegar virkjunin er útfærð er hún orðin miklu stærri en hún var þegar þingið skipaði henni í nýtingaflokk,“ sagði Katrín í hlaðvarpsþætti Mannlífs í síðustu viku.

Rammaáætlun 2 var samþykkt árið 2013 í ríkisstjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur þegar Vinstri græn héldu utan um umhverfisráðuneytið.

Gunnar Gaukur Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri VesturVerks, orkufyrirtækis á Ísafirði í eigu HS Orku sem heldur utan um Hvalárvirkjunarverkefnið, gagnrýndi þessi orð Katrínar í samtali við vestfirska miðilinn Bæjarins besta í gær og kallaði þau kosningaáróður og bull.

Engar grundvallarbreytingar hefðu orðið á áætlunum um virkjunina frá því sem var í rammaáætlun 2.

Undarlegt að forsætisráðherra láti slík orð falla

Og það tekur Ásbjörn Blöndal, formaður stjórnar VesturVerks og framkvæmdastjóri þróunarsviðs HS Orku. Hann áttar sig ekki á því hvaða stækkun forsætisráðherrann vísi til.

Vissulega hafi verið gert ráð fyrir að Hvalárvirkjun yrði 37 megavatta virkjun í rammaáætlun 2 en nú sé gert ráð fyrir að hún verði 55 megavatta virkjun. Það sé þó breyting sem hafi engin áhrif á framkvæmdirnar eða umhverfisáhrif virkjunarinnar heldur hafi einfaldlega komið í ljós að hægt væri að vinna meiri orku úr vatni á svæðinu með sömu stíflu og sömu skurðum.

„Mér finnst afar sérkennilegt að forsætisráðherra segi svona vegna þess að Alþingi lagði blessun sína á þessar framkvæmdir,“ segir Ásbjörn Blöndal í samtali við fréttastofu. Honum þykir þetta ekki síst undarlegt í ljósi þess að Vinstri græn hafi ríkt yfir umhverfisráðuneytinu þegar rammaáætlun 2 var samþykkt árið 2013.

Rammaáætlun 3, þar sem Hvalárvirkjun var orðin 55 megavatta virkjun, var síðan lögð fram í þriðja sinn í fyrra af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfisráðherra Vinstri grænna fyrir tæpu ári síðan, í nóvember 2020.

Neikvæðari umhverfisáhrif hafi komið í ljós

Fréttastofa spurði Katrínu nánar út í þetta eftir ríkisstjórnarfund í morgun:

„Ég samþykkti að þessi virkjun, eins og henni var lýst þá, færi í nýtingarflokk af því ég studdi áætlunina sem heild. Það þýðir ekki að maður geti ekki haft skoðanir á einstökum virkjanakostum og hvað þeir þýða fyrir umhverfi og landslag á þeim stað,“ sagði Katrín.

„Fyrir utan að virkjunin sem síðan var lögð til var umtalsvert stærri en fjallað var um í nýtingarflokki rammaáætlunar.“

Þegar hún var spurð út í orð talsmanna VesturVerks um að engar grundvallarbreytingar hefðu átt sér stað á framkvæmdinni sjálfri sagði Katrín:

„Það var bent á það í umhverfismati framkvæmda, sem lagt er fram eftir að Alþingi samþykkir, að það væru töluvert neikvæðari umhverfisáhrif af þessari virkjun sem auðvitað gerði það að verkum að hún varð umdeild á sínum tíma.

En ferlið er þannig að Alþingi samþykkir að skipa virkjunum í biðflokk, nýtingarflokk eða verndarflokk. Umhverfismatið liggur síðar fyrir og þá auðvitað skýrist betur hvernig svona framkvæmdir líta út í raun og veru.“

Óskert víðerni hafi fengið meira vægi í umræðunni

Ásbjörn Blöndal furðar sig einnig á þessu: „Það hefur ekkert breyst. Ekkert við nýtingu á vatnasvæðinu eða neitt þess háttar. Þannig að umhverfislega séð og það sem þú tekur upp af landslagi, það er gjörsamlega óbreytt.“

Hann segir umhverfismat auðvitað kafa dýpra ofan í málin en hafi verið lýst í rammaáætlun sjálfri. Þó geti hann ekki fallist á að það umhverfismat hafi sýnt mikið neikvæðari áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið en hafi verið búist við.

„Nei, en auðvitað hefur það gerst með tíð og tíma að óbyggðir hafa orðið meira ráðandi í umræðunni, óskert víðerni og svo framvegis. Að því leytinu til… rammaáætlun var kannski ekki mikið að fjalla um það atriði sérstaklega og það er kannski helst það sem mér dettur í hug,“ segir Ásbjörn.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×