Íslenski boltinn

Guðni Þór: Með þennan vilja er hægt að gera allt

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðni Þór Einarsson, þjálfari Tindastóls, segir að sigur liðsins á Selfossi í dag hafi verið verðskuldaður..
Guðni Þór Einarsson, þjálfari Tindastóls, segir að sigur liðsins á Selfossi í dag hafi verið verðskuldaður.. Vísir/Hulda Margrét

Guðni Þór Einarsson, þjálfari Tindastóls, var eðlilega sáttur með 3-1 sigur liðsins gegn Selfyssingum á Jáverk-vellinum í dag. Liðið heldur enn í veika von um að halda sæti sínu í Pepsi Max deildinni á næsta tímabili, en Guðni segir sigurinn í dag hafa verið verðskuldaðan.

„Tilfinningin eftir leik er bara ofboðslega góð og ég er bara virkilega, virkilega stoltur af mínu liði í dag,“ sagði Guðni að leik loknum.

„Við lögðum mikla vinnu í leikinn og stelpurnar skildu allt eftir úti á velli og við lögðum öll spilin á borðið. Þetta var verðskuldaður sigur.“

Önnur úrslit í dag þýða það að Tindastóll þarf að vinna lokaleik tímabilsins og treysta á önnur úrslit til að eiga möguleika á að halda sér í Pepsi Max deildinni á markatölunni einni. Guðni segir að liðið muni berjast fram á síðustu stundu.

„Við munum allavega selja okkur dýrt. Við berjumst til síðasta lokaflauts og munum gera okkar besta og sjáum svo hverju það skilar okkur í næsta leik. Við mætum til leiks og gerum okkar besta.“

Seinasti leikur tímabilsins hjá Tindastól er heimaleikur gegn Stjörnunni. Guðni segir að undirbúningurinn fyrir þann leik verði svipaður og fyrir leikinn í dag.

„Það er bara sama og í dag. Við þurfum bara að mæta með sömu stemningu og sama hugarfar og í þennan leik. Með þennan vilja er hægt að gera allt.“

Nokkuð var um tafir í seinni hálfleik í leik dagsins og sigurmark Tindastóls kom ekki fyrr en á níundu mínútu uppbótartíma. Fram að því höfðu Selfyssingar þjarmað að gestunum og voru líklegar til að jafna leikinn, en Guðni segist hafa verið nokkuð rólegur.

„Við bjuggumst við að Selfyssingar myndu koma dýrvitlausar inn í seinni hálfleikinn. Þær færðu sig framar á völlinn sem þýddi það að það opnaðist pláss á bakvið sem við nýttum okkur frábærlega og Aldís gerði góð mörk hérna í lokin.“

„Við vorum þéttar en Selfossliðið er gott. Þær voru til alls líklegar til að jafna hérna en við náðum að loka vel fyrir sem ég er ánægður með og þetta var verðskuldaður sigur að mínu mati,“ sagði Guðni að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×