Íslenski boltinn

Fram deildarmeistari og ÍBV einum sigri frá Pepsi Max-deildar sæti

Valur Páll Eiríksson skrifar
Framarar eru Lengjudeildarmeistarar.
Framarar eru Lengjudeildarmeistarar. Vísir/Haraldur Guðjónsson

Fram tryggði sér Lengjudeildartitilinn í fótbolta í dag með 2-0 útisigri á Grindavík. Sigur Fjölnis á Kórdrengjum þýðir að von þeirra síðarnefndu um sæti í efstu deild er orðin afar veik.

Framarar hafa farið hamförum í Lengjudeildinni í sumar og var það í raun bara tímaspursmál hvenær liðið myndi tryggja sér titilinn eftir að hafa tryggt sér sæti í Pepsi Max-deildinni fyrr í sumar.

Albert Hafsteinsson kom liðinu yfir í dag þar sem hann fylgdi eftir eigin vítaspyrnu sem var varin af Aroni Degi Birnusyni, markverði Fjölnis, á 33. mínútu. Fram leiddi 1-0 í hálfleik og þrátt fyrir klúður sitt í fyrri hálfleiknum fékk Albert aftur að stíga á punktinn er Fram fékk aðra vítaspyrnu á 53. mínútu. Honum brást ekki í síðara skiptið og skoraði annað mark sitt í leiknum af punktinum.

Fram vann leikinn 2-0 og er eftir sigurinn með 53 stig eftir 20 leiki í toppsæti deildarinnar. Úrslitin þýða að ÍBV sem er fyrir neðan þá með 40 stig eftir 18 leiki, getur ekki náð þeim, og Fram því Lengjudeildarmeistari 2021.

Í Breiðholti fengu Kórdrengir Fjölni í heimsókn og þurftu þeir sigur til að halda í við ÍBV í vonum sínum um að taka annað sæti deildarinnar. Sigurpáll Melberg Pálsson kom Fjölni yfir á 19. mínútu og 1-0 stóð í hléi.

Hans Viktor Guðmundsson tvöfaldaði forskot Fjölnis á 70. mínútu og skoraði svo aftur níu mínútum síðar. Ásgeir Frank Ásgeirsson minnkaði muninn fyrir Kórdrengi á 87. mínútu en í uppbótartíma innsiglaði Viktor Andri Hafþórsson 4-1 sigur Fjölnis.

Úrslitin þýða að Kórdrengir eru með 37 stig í þriðja sæti eftir 20 leiki. ÍBV hefur leikið tveimur leikjum færra og eru fjórum stigum fyrir ofan þá. ÍBV er því einum sigri frá því að tryggja sæti sitt í efstu deild að ári.

Fjölnir er með 33 stig í fjórða sæti, fjórum frá Kórdrengjum, og eiga þeir leik inni á þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×