Erlent

Sex dæmdir til dauða fyrir að myrða hin­segin að­gerða­sinna

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Frá útför Mannans árið 2016.
Frá útför Mannans árið 2016. Getty/Rehman Asad

Sex meðlimir íslamsks vígahóps voru dæmdir til dauða í Bangladess í morgun fyrir að hafa myrt tvo hinsegin aðgerðasinna fyrir fimm árum síðan.

Xulhaz Mannan, 35 ára gamall ritstjóri fyrsta hinsegintímarits Bangladess, og Mahbub Rabbi Tonoy, 25 ára leikari, voru myrtir í íbúð Mannans í höfuðborg landsins, Dhaka, í apríl 2016. Íslamski vígahópurinn Ansar Al Islam, sem er undirhópur al Qaeda á svæðinu, lýsti yfir ábyrgð á morðunum stuttu síðar, en vígamenn á vegum hópsins höfðu myrt mennina með því að saxa þá í spað. Fréttastofa Reuters greinir frá. 

Árásin var ein margra árása sem vígahópurinn stóð að baki. Hópurinn beindi spjótum sínum að fólki sem var ekki trúað og öðrum minnihlutahópum í landinu. Árásirnar vöktu mikla athygli og reiði og leiddu til þess að fjöldi flúði landið.

Átta voru ákærðir fyrir morðin en sex sakfelldir og dæmdir til dauða. Mennirnir voru jafnframt dæmdir fyrir hryðjuverk, en Ansar Al Islam er talinn standa að baki morðum á tugum aðgerðasinna.

Lögmaður mannanna hefur þegar tilkynnt að dómunum verði áfrýjað.

Mennirnir tveir sem voru sýknaðir eru báðir á flótta, auk annarra tveggja manna sem voru dæmdir fyrir morðin. Einn þeirra er Syed Ziaul Haq, fyrrverandi liðshöfðingi í her Bangladess sem talinn er vera leiðtogi Ansar Al Islam og skipuleggjandi morðanna.

Meirihluti íbúa í Bangladess aðhyllist íslam en samkynja hjónabönd eru enn ólögleg í landinu. Tímarit Mannans, Roopbaan, hafði á tíma morðanna ekkert leyfi til að vera gefið út en hinsegin fólk er enn mjög jaðarsett í Bangladess.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.