Guðni Bergsson, formaður KSÍ, sagði af sér sem formaður á dögunum og í gær ákvað stjórn sambandsins sömuleiðis að segja af sér og boða til aukaþings eftir fjórar vikur. Á meðan mun stjórnin starfa eins og henni ber að gera.
Hávær krafa var um að bæði stjórn KSÍ og Klara stigu til hliðar. Meðal annars frá íslenskum toppfótbolta, ÍTF. Stjórnin varð við þeim kröfum en Klara staðfesti við RÚV í gær að hún ætlaði sér að sitja sem fastast.
Klara er starfsmaður sambandsins og miðað við þá stöðu sem er komin upp getur enginn vikið henni úr starfi nema stjórn KSÍ þar sem formaðurinn er farinn. Stjórnin er á útleið og mun því ekki taka á starfsmannamálum á sínum síðustu vikum. Það er á ábyrgð stjórnar að ráða framkvæmdastjóra samkvæmt lögum KSÍ.
„Stjórnin hefur vald til þess að víkja fólki frá störfum en mun ekki fara út í það. Það er mikilvægt að framkvæmdastjórinn fái sanngjarna umfjöllun um sín störf,“ segir Gísli Gíslason annar varaformanna KSÍ og þar af leiðandi starfandi formaður fram að aukaþinginu.
En nýtur Klara trausts stjórnarinnar?
„Hún hefur staðið sig vel í öllum sínum verkum fyrir sambandið en þetta mál varpar þó skugga á hennar störf. Við erum aftur á móti ekki að fara að taka hennar mál til umfjöllunar.“