Umrædd félög eru Einherji, ÍR, Magni, Leiknir F., Hamar, Völsungur, Víðir, Njarðvík og KV. Þau gera sömu kröfu og ÍTF, hagsmunasamtök félaganna í efstu tveimur deildum karla og kvenna; að KSÍ boði til aukaþings þar sem núverandi stjórn geti endurnýjað umboð sitt.
Í yfirlýsingu félaganna níu segir að orðspor íslenskrar knattspyrnu sé stórlega skaðað og því sé nauðsynlegt að boða til aukaþings og móta viðbrögð til framtíðar sem njóti trausts allra aðildarfélaga KSÍ og samfélagsins í heild sinni.
Bent er á grein 13.5 í lögum KSÍ en þar segir: „Á aukaþingi má ekki gera lagabreytingar og ekki kjósa stjórn, nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum að öðrum orsökum, eða stjórnin að eigin dómi orðið óstarfhæf.“
Félögin níu segja nauðsynlegt að öll aðildarfélög KSÍ komi að málinu til að traust ríki um næstu skref og þá vinnu sem nú þurfi að ráðast í.
Innlegg í málefni KSÍ frá knattspyrnudeild ÍR. pic.twitter.com/kbeh76r9k3
— ÍR Fótbolti (@IRFotbolti) August 30, 2021
Á fundi KSÍ í gær var rætt um að boða til auka ársþings en engin formleg tillaga var lögð fram þess efnis.
Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður KSÍ í gær en stjórn sambandsins situr sem fastast. Gísli Gíslason og Borghildur Sigurðardóttir gegna störfum formanns tímabundið. Í samtali við Bítið á Bylgjunni sagði Borghildur að ekki hafi verið möguleiki á því að öll stjórnin myndi hætta því þá yrði KSÍ óstarfhæft.