Íslenski boltinn

Tíu HK-konur sendu ÍA niður í fallsæti

Valur Páll Eiríksson skrifar
HK

HK vann gríðarmikilvægan 2-1 útisigur á ÍA á Akranesi í lokaleik 16. umferðar Lengjudeildar kvenna í fótbolta í kvöld. Bæði lið berjast fyrir lífi sínu í deildinni.

Baráttan um fallið er jöfn og spennandi í deildinni en fyrir leik kvöldsins á Skaganum voru heimakonur í ÍA í 8. sæti deildarinnar með 14 stig, tveimur stigum á undan HK sem var sæti neðar í fallsæti.

Gestirnir úr Kópavogi byrjuðu betur þar sem Ragnheiður Kara Hólm Örnudóttir kom HK 1-0 yfir eftir aðeins þriggja mínútna leik. Unnur Ýr Haraldsdóttir jafnaði fyrir ÍA á 25. mínútu eftir stoðsendingu Dana Joy Scheriff.

1-1 stóð í hléi en ljóst var að HK myndi þurfa að leika manni færri allan síðari hálfleikinn eftir að Henríetta Ágústsdóttir fékk að líta tvö gul spjöld með tveggja mínútna millibili undir lok fyrri hálfleiks.

Danielle Marcano skoraði hins vegar eina mark síðari hálfleiks fyrir tíu leikmenn HK á 57. mínútu og tryggði liðinu 2-1 sigur.

HK fer þar með upp fyrir ÍA og sendir Skagakonur niður í fallsæti. Augnablik er á botni deildarinnar með ellefu stig, ÍA þar fyrir ofan með 14 stig, HK með 15 stig í neðsta örugga sæti deildarinnar en Grótta og Grindavík aðeins með stigi meira, 16 stig hvort, í 6.-7. sæti.

Tveir leikir eru eftir í deildinni og því sex stig í pottinum.Því geta öll fimm ofannefndu liðin bæði fallið og haldið sæti sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×