Erlent

„Hjarta“ kjarnorkuáætlunar Norður-Kóreu var ræst í sumar

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar Suður-Kóreu fylgjast með fréttum af starfsemi Yongbyoun í Norður-Kóreu.
Íbúar Suður-Kóreu fylgjast með fréttum af starfsemi Yongbyoun í Norður-Kóreu. AP/Ahn Young-joon

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) segir útlit fyrir að Norður-Kóreumenn hafi ræst kjarnakljúfur ríkisins í Yongbyon fyrr á þessu ári. Í árlegri skýrslu IAEA sem birt var um helgina segir að kveikt hafi verið á kljúfinum í júlí og kælivatn hafi verið losað frá Yongbyon.

Kljúfurinn er fimm megavött og framleiðir plútóníum. Auðgað úran er einnig framleitt í Yongbyon en það eru helstu efnin sem notuð eru til framleiðslu kjarnorkuvopna.

Meðal annars var notast við gervihnattamyndir til að greina aukin umsvif í Yongbyon. Umsvif sem IAEA segir áhyggjuvaldandi og skýr brot á samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

AP fréttaveitan segir yfirvöld í Norður-Kóreu hafa lýst Yongbyon sem hjarta kjarnorkuvopnaáætlunar ríkisins. Alþjóðasamfélagið hefur um árabil haft áhyggjur af starfseminni þar en ekki er vitað hve mikið úran og plútóníum hefur verið framleitt þar né hvar það er geymt.

Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, bauðst árið 2019 til þess að rífa Yongbyon á fundi með Donald Trump, þáverandi forseta Bandaríkjanna, og það í skiptum fyrir niðurfellingu viðskiptaþvingana gegn Norður-Kóreu. Því tilboði var þó hafnað þar sem það fól ekki í sér afvopnun Norður-Kóreu.

Ríkið er talið reka nokkrar leynilegar rannsóknarstöðvar þar sem úran er auðgað og er talið að einræðisríkið hafi þegar framleitt tugi kjarnorkuvopna.

Viðræður milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu um kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlun einræðisríkisins strönduðu árið 2019, eftir nokkra fundi Kim og Trumps.

Norður-Kóreumenn hafa sagt að þær muni ekki hefjast að nýju fyrr en viðskiptaþvinganir verði felldar niður. Í Bandaríkjunum hefur viðhorfið verið að það komi ekki til greina. Fyrst verði Kóreumenn að taka sín fyrstu skref í átt að afvopnun.

Neita að taka upp tólið

Yonhap fréttaveitan segir ráðamenn í Suður-Kóreu fylgjast grannt með gangi mála hjá nágrönnum sínum. Daglegum símtölum til Norður-Kóreu hafi ekki verið svarað í þessum mánuði eftir að ríkisstjórn Kim lýsti því yfir mikilli reiði vegna sameiginlegra heræfinga Suður-Kóreu og Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir

Xi og Kim heita nánari samvinnu

Xi Jinping og Kim Jong Un, ráðendur Kína og Norður-Kóreu, hafa heitið því að auka samvinnu ríkjanna. Það gerðu þeir í skilaboðum sem þeir sendu hvorum öðrum á dögunum. Í skilaboðum til Xi sagði Kim að náið samband Norður-Kóreu og Kína væri nauðsynlegt í ljósi óvinveittra erlendra afla.

Engin bóluefni í Norður-Kóreu, þrátt fyrir ítrekuð boð

Rússar hafa boðist til að senda skammta af bóluefninu Spútnik 5 til Norður-Kóreu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slíkt boð berst til Norður-Kóreu en Rússar hafa til að mynda boðið einræðisríkinu bóluefni áður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.