Tottenham á toppinn og Bamford bjargaði stigi fyrir Leeds

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mark Sons Heung-min skildi Tottenham og Watford að.
Mark Sons Heung-min skildi Tottenham og Watford að. getty/Tottenham Hotspur FC

Tottenham tyllti sér á topp ensku úrvalsdeildarinnar með sigri á nýliðum Watford, 1-0, á heimavelli í dag. Burnley og Leeds United skildu jöfn, 1-1, á Turf Moor.

Spurs hefur unnið alla þrjá leiki sína í ensku úrvalsdeildinni, 1-0. Þeir eru eina lið deildarinnar sem hefur ekki enn fengið á sig mark.

Son Heung-min skoraði eina mark leiksins í dag á 42. mínútu. Aukaspyrna hans sigldi þá framhjá öllum, samherjum og mótherjum, og endaði í fjærhorninu.

Watford er í 12. sæti deildarinnar en liðið hefur tapað tveimur leikjum í röð eftir að hafa unnið Aston Villa, 3-2, í 1. umferðinni.

Burnley og Leeds gerðu 1-1 jafntefli á Turf Moor. Chris Wood kom Burnley yfir á 61. mínútu eftir skot Matthews Lowton og klafs í vítateig Leeds. Þetta var mark númer þrjátíu þúsund í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley en var tekinn af velli á 63. mínútu.

Flest benti til þess að mark Woods myndi duga Burnley til sigurs en Patrick Bamford var á öðru máli og jafnaði á 86. mínútu. Bamford var valinn í enska landsliðið í fyrsta sinn í síðustu viku og hélt upp á það með marki í dag.

Leeds er í 15. sæti deildarinnar með tvö stig en Burnley í því sextánda með eitt stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira