Erlent

Óttast frekari árásir ISIS í Afganistan

Kjartan Kjartansson skrifar
Læknar hlúa að manni sem særðist í hryðjuverkaárásinni við flugvöllinn í Kabúl í gær. Tvær sjálfsmorðssprengjur voru sprengdar í mannþröng og eru fleiri en hundrað manns látnir.
Læknar hlúa að manni sem særðist í hryðjuverkaárásinni við flugvöllinn í Kabúl í gær. Tvær sjálfsmorðssprengjur voru sprengdar í mannþröng og eru fleiri en hundrað manns látnir. AP/Khwaja Tawfiq Sediqi

Viðbúnaður er hjá bandarísku herliði sem aðstoðar við brottflutning afganskra flóttamanna frá Kabúl vegna möguleikans á fleiri hryðjuverkaárásum. Fleiri en hundrað manns, afganskir borgarar og bandarískir hermenn, féllu í sjálfsmorðssprengjuárás í gær.

Deild hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams í Afganistan lýsti ábyrgð á fjöldamorðinu við flugvöllinn í Kabúl í gær á hendur sér. Tala látinna stendur nú í 95 afgönskum borgurum og þrettán bandarískum hermönnum.

Frank McKenzie, hershöfðingi og yfirmaður stjórnar Bandaríkjahers, segir að bandarískir herforingjar séu nú á varðbergi fyrir frekari árásum Ríkis íslams, þar á meðal eldflauga- eða bílsprengjuárásum á flugvöllinn.

„Við erum að gera allt sem við getum til að vera undir það búin,“ sagði McKenzie við Reuters-fréttastofuna.

Bandaríkjaher hefur deilt upplýsingum með talibönum sem stjórna nú Kabúl og telur McKenzie að þeir hafi stöðvað einhverjar árásir.

Brottflutningi bandaríska herliðsins frá Afganistan á að ljúka 31. ágúst en enn er verið að forða þúsundum Afgana og erlendra ríkisborgara úr landi. Joe Biden Bandaríkjaforseti hét því að koma fram hefndum gegn Ríki íslams eftir hryðjuverkin í gær. Skipaði hann varnarmálaráðuneyti sínu að skipuleggja árásir á samtökin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×