Fótbolti

Erum að kíkja til framtíðar en ég hata að tapa

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í gær þegar þeir tilkynntu nýjasta landsliðshóp sinn.
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í gær þegar þeir tilkynntu nýjasta landsliðshóp sinn. vísir/vilhelm

Fjórir leikmenn í nýjasta landsliðshópi karla í fótbolta, sem leikur í undankeppni HM í næstu viku, hafa ekki náð tvítugsaldri. Í hópnum eru einnig tvöfalt eldri leikmenn á borð við Kára Árnason og Hannes Þór Halldórsson.

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta þarf að spjara sig án Gylfa Þórs Sigurðssonar, Arons Einars Gunnarssonar, Ragnars Sigurðssonar, Alfreðs Finnbogasonar og fleiri í komandi leikjum. Manna sem verið hafa burðarásar í liðinu síðasta áratuginn.

Arnar Þór Viðarsson tilkynnti nýjan landsliðshóp á fundi í höfuðstöðvum KSÍ í gær. Eftir fundinn var hann spurður hvort líta mætti svo á að hann væri farinn að byggja upp nýtt lið í stað þess sem unnið hefur stærstu sigra í íslenskri fótboltasögu:

„Við eigum alltaf að vera í stanslausri þróun. Vegna þess hvað þessi kynslóð og þetta lið hefur náð ótrúlega góðum árangri undanfarin tíu ár þá hefur þróunin kannski aðeins staðið í stað. Það vantar því inn ákveðna kynslóð í þennan hóp,“ sagði Arnar.

Klippa: Arnar um uppbyggingu og þróun landsliðsins

Í hópnum sem mætir Rúmeníu næsta fimmtudag, Norður-Makedóníu 5. september og Þýskalandi 8. september eru meðal annars þrír nýliðar, þeir Andri Lucas Guðjohnsen, Mikael Egill Ellertsson og Patrik Sigurður Gunnarsson. Patrik er tvítugur en þeir Andri Lucas, Mikael og Andri Fannar Baldursson 19 ára og Ísak Bergmann Jóhannesson 18 ára. Fleiri eru í hópnum rétt orðnir tvítugir.

Arnar segir að á sama tíma og hann vilji koma ungum leikmönnum inn í hópinn til að þroskast og dafna vilji hann sífellt ná árangri.

„Það er ekkert leyndarmál að við erum að þróa liðið og kíkja til framtíðar. Kári Árna verður ekki í landsliðinu eftir tvö ár, því miður. Þetta eru hlutir sem við þurfum að horfast í augu við og við erum að sjálfsögðu að þróa hópinn og liðið fyrir framtíðina líka. Það breytir því ekki að ég hata að tapa og vil bara vinna næsta leik. Ég vona, og veit það alveg, að allir sem að mæta hingað í þennan hóp trúi því að við getum unnið næsta leik. Þetta er alltaf bæði skammtímaplan og langtímaplan,“ sagði Arnar.


Tengdar fréttir

Búið að vera mikið að gera og búið að vera erfitt að mörgu leyti

„Ég ætla ekki að standa hérna og ljúga að þér, það er búið að vera mikið að gera og þetta er búið að vera erfitt að mörgu leyti,“ sagði Arnar Þór Viðarsson er hann ræddi við Stöð 2 og Vísi eftir að landsliðshópur Íslands fyrir leikina gegn Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi var tilkynntur.

Ísland án margra lykilmanna í komandi verkefni í undankeppni HM

Landsliðsþjálfararnir Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen kynntu í dag landsliðshóp sinn fyrir komandi verkefni í undankeppni heimsmeistaramótsins. Ísland varður án margra lykilmanna. Henry Birgir Gunnarsson var í Laugardalnum og ræddi við Arnar Þór eftir fundinn.

Arnar Þór hefur ekki rætt við Gylfa

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, segist ekki hafa rætt við Gylfa Þór Sigurðsson eftir að hann var handtekinn á Englandi vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða stúlku.

Svona var blaðamannafundur KSÍ

Landsliðsþjálfararnir Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í Laugardal í dag þar sem þeir tilkynntu hópinn fyrir næstu leiki í undankeppni HM karla í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×