Fótbolti

Biðu fram á síðustu stundu en töldu Aron ekki leikhæfan

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Einar Gunnarsson verður ekki á Laugardalsvelli í september.
Aron Einar Gunnarsson verður ekki á Laugardalsvelli í september. VÍSIR/VILHELM

„Því miður er Aron bara ekki leikhæfur,“ segir Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari um fjarveru Arons Einars Gunnarssonar fyrirliða í komandi landsleikjum.

Aron missir af heimaleikjunum þremur við Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskaland dagana 2.-8. september á Laugardalsvelli.

Hann veiktist af kórónuveirunni í æfingaferðalagi með félagsliði sínu, Al Arabi.

„Við biðum fram á síðustu stundu, þar til seint í gærkvöldi, í samskiptum við Aron. Hann er því miður á undirbúningstímabili með Al Arabi, og svo veikist hann þarna fyrir ákveðið mörgum dögum og hefur verið í viku í einangrun á hóteli, aleinn. Það er ómögulegt að ná honum leikhæfum fyrir verkefnið. Við tókum þá ákvörðun í sameiningu að vera ekki að „forca“ það eitthvað,“ sagði Arnar á blaðamannafundi í dag.

„Svo er annað, sem við lendum í með Rúnar Alex [Rúnarsson, markvörð Arsenal, sem einnig veiktist af veirunni], að það eru reglur hjá þessum félögum. Þegar leikmenn koma úr Covid er skylda að þeir fari í gegnum nákvæma læknisskoðun þó þeir séu komnir með neikvæð próf. Ómskoðun, hjartalínurit og fleira. Þetta er Rúnar Alex búinn með en þetta á Aron allt eftir. Þegar við tökum allt inn í myndina var ómögulegt að ná honum inn,“ sagði Arnar sem gat því valið Rúnar Alex í hópinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×