Innlent

Stað­festir á­kvörðun að fella niður kæru Sam­herja gegn starfs­fólki Seðla­bankans

Atli Ísleifsson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagðist í apríl vera ósáttur við það hvernig útgerðarfélagið Samherji hafi ráðist að starfsfólki bankans með, meðal annars, kærum til lögreglu. Kallaði hann eftir því að Alþingi setji lög til að koma í veg fyrir atlögur að opinberum starfsmönnum.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagðist í apríl vera ósáttur við það hvernig útgerðarfélagið Samherji hafi ráðist að starfsfólki bankans með, meðal annars, kærum til lögreglu. Kallaði hann eftir því að Alþingi setji lög til að koma í veg fyrir atlögur að opinberum starfsmönnum. Vísir/Vilhelm

Embætti ríkissaksóknara hefur staðfest þá ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum að fella niður kæru útgerðarfélagsins Samherja á hendur fimm starfsmönnum Seðlabankans vegna rannsóknar á meintum brotum félagsins á lögum um gjaldeyrismál. Sömuleiðis er felld niður rannsókn á meintum leka úr Seðlabankanum og til fréttamanns RÚV.

RÚV segir frá þessu og hefur eftir Helga Magnúsi Gunnarssyni vararíkissaksóknara. Kæra Samherja var send lögreglu á vordögum 2019. Lýsti lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sig þá vanhæfan til að taka afstöðu til kærunnar vegna tengsla og fól ríkissaksóknari þá lögreglustjóranum á Vestfjörðum málið með bréfi í júlí sama ár.

Sá hluti málsins sem varðaði meintan leka úr Seðlabankanum sneri að húsleit hjá Samherja í mars 2012 og hvort starfsmaður innan Seðlabankans hafi þá upplýst fréttamann Ríkisútvarpsins um að til stæði að gera húsleit hjá Samherja.

Í september 2019 beindi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra erindi til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu varðandi umræddan leka og hafnaði það mál einnig á borði lögreglustjórans á Vestfjörðum.

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum vísaði báðum málum frá þann í byrjun mars og hefur ríkissaksóknari nú staðfest ákvörðun lögreglustjóraembættisins.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×