Erlent

Tali­banar voru komnir til Kabúl mánuðum áður en borgin féll

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Talibanar leggja niður vopn sín fyrir föstudagsbænir í Kabúl.
Talibanar leggja niður vopn sín fyrir föstudagsbænir í Kabúl. Getty/MARCUS YAM

„Í byrjun júlí hitti ég einn herforingja Talibana. Ég spurði hvenær hermenn hans myndu koma til Kabúl. Hann svaraði: Þeir eru hérna nú þegar.“

Svona hefst grein sem var á forsíðu þýska fréttablaðsins Der Spiegel á föstudaginn. Fram kemur í greininni að löngu áður en Kabúl, höfuðborg Afganistan, féll fyrir hersveitum Talibana hafi þeir verið búnir að koma sér fyrir í borginni. Það útskýri hvers vegna hún féll á aðeins nokkrum klukkustundum.

Allt frá því í apríl hafi stríður straumur Talibana legið í átt að höfuðborginni. Margir stríðsmannanna hafi komið sér fyrir í smábæjum fyrir utan borgarmörkin. Þeir hafi þó einnig verið farnir að koma sér fyrir innan borgarmarkanna, til að mynda í nágrenni við Qargha stöðuvatnið þar sem nóg er um störf.

„Þegar rétti tíminn kemur verða Talibanar út um allt“

Íbúar Kabúl hafi sjálfir tekið eftir þessum straumi manna.

„Þetta hófst í apríl,“ hefur blaðamaðurinn eftir félaga sínum, sem býr í vesturhluta Kabúl. „Fleiri og fleiri utan að landi voru allt í einu í hverfinu. Sumir voru skeggjaðir, aðrir ekki. Sumir klæddir fínum fötum, aðrir voru í dulum. Allir ólíkir. Þess vegna var svo erfitt að taka eftir þeim. En sumir íbúar föttuðu að þeir voru ekki héðan.“

Í byrjun júlímánaðar hitti blaðamaðurinn fyrir herforingja Talibana í Kabúl. Hann lýsti því að menn hans væru þegar komnir inn í borgina.

„Þeir eru öryggisverðir á veitingastöðum, vinna í skemmtigarðinum, eru ræstitæknar. Þegar tíminn er réttur verða Talibanar út um allt.“ Sex vikum eftir fund blaðamannsins og herforingjans var hann kominn í forsetahöllina, ásamt öðrum leiðtogum Talibana.

Markmið Vesturveldanna frá upphafi meingallað

En hvers vegna gátu Talibanar komið sér svona rækilega fyrir í höfuðborginni án þess að nokkuð var við því gert?

Blaðamaður Spiegel vill meina að það hafi ekki verið ákvörðun Joe Bidens Bandaríkjaforseta um að draga herlið Bandaríkjanna heim, eins og Donald Trump forveri hans vildi meina. Það hafi heldur ekki verið einhver stærri áætlun eins og Atta Mohammad Noor, herforingi og fyrrverandi ríkisstjóri Mazar-e-Sjarif hélt fram á Facebook og Ashraf Ghani, nú fyrrverandi forseti Afganistan, sagði í viðtali við Spiegel í maí.

Nei, ástæðuna megi rekja allt til fyrstu daga innrásar Bandaríkjanna í Afganistan í október 2001. Innrás og markmið Bandaríkjanna frá upphafi verið meingallað. Bandaríkin hafi frá byrjun grafið undan markmiði sínu og meintu hlutverki í Afganistan.

„Ranghugmyndir Vestursins komu upp strax í byrjun innrásarinnar, þegar Washington taldi að hernaðarinngrip myndi duga til að koma á friði í landinu. Þessar ranghugmyndir vörðu allt til loka hersetunnar,“ segir í greininni.

„Önnur ranghugmynd var sú trú að hægt væri að byggja upp heila þjóð og vernda hana ef aðeins nægt fjármagn væri sett í uppbyggingu og nógu margir fengju þjálfun.“

Buðu grimmum herforingjum að taka þátt í stjórnmálunum

Með hverju árinu sem hafi liðið á hersetu Bandaríkjanna og annarra Vesturvelda hafi líkurnar á að markmiðum þeirra yrði náð og þau héldust, minnkað.

Bandaríkin réðust inn í Afganistan í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar á Tvíburaturnana í New York þann 11. september 2001. Hryðjuverkasamtökin al-Qaeda reyndust hafa framið árásina, en höfuðstöðvar þeirra voru í Afganistan á sínum tíma. Bandaríkin sneru sér til ríkisstjórnar Talibana og kröfðust að foringi al-Qaeda yrði afhentur. Nei svöruðu Talibanar. Og Bandaríkin gerðu innrás tæpum mánuði síðar, 7. október 2001.

Sléttum tveimur mánuðum síðar var ríkisstjórn Talibana fallin og Bandaríkin höfðu sigrað. Í júní 2002 var boðað til fundar fyrir alla helstu þjóðbrotaleiðtoga í Afganistan. Zalmay Khalilzad, sérstakur talsmaður Bandaríkjanna, fékk það í gegn að á fundinum fengju fimmtíu menn til viðbótar að sitja. Það voru leiðtogar uppreisnarhersveita sem höfðu stjórnað landinu fyrir tíð Talibana.

Þessir uppreisnarhersveitaleiðtogar höfðu barist gegn Sovétmönnum og afgönskum kommúnistum í borgarastyrjöld sem varði í nær tíu ár. Þessir sömu menn höfðu svo aðstoðað hersveitir Bandaríkjanna, undir stjórn Georges W. Bush forseta, að berjast gegn Talibönum.

Meðal þessara herforingja voru Mohammed „Marshal“ Fahim, tadsjiskur herforingi sem sakaður var um fjöldamorð og mannrán, og Rashid Dostum, úsbeskur herforingi, sakaður um að hafa myrt hundruð handtekinna Talibana og að hafa fyrirskipað að andstæðingum hans yrði nauðgað. Báðir urðu síðar varaforsetar Afganistan. Langflestir fundarmanna urðu þá valdamiklir stjórnmálamenn eftir fall Talibana.

Þrjátíu eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna myrtir

Þegar leið á hersetuna bárust sífellt fleiri fregnir af ofbeldi sem stjórnarhermenn, Bandaríkjaher og hermenn annarra Vesturvelda beittu almenna borgara. Samkvæmt frétt Spiegel réttlættu vestrænir stjórnmálamenn það með því að „Talibanar væru þarna enn þá.“

„En það var ekki rétt. Þeir komu hægt og rólega aftur eftir að hafa ekki verið til staðar í nokkur ár, fyrst í suðri og svo í norðri.“

Að mati blaðamanns Spiegel voru það forsetakosningarnar 2009 sem geru útslagið. Hamid Karzai hafði setið sem forseti frá brotthvarfi Talibana og bauð sig fram að nýju. Hann bar sigur úr bítum en fljótlega eftir kosningar benti sífellt fleira til þess að hann hafi beitt víðtæku kosningasvindli.

Svo boðað var til annarra kosninga. Eftirlitsmenn frá Sameinuðu þjóðunum skyldu fylgjast með þeim. Þann 28. október gerðu þrír menn árás á gistihúsið sem eftirlitsmenn SÞ dvöldu í og slátruðu þeim tæpu 30 eftirlitsmönnum sem voru í byggingunni. Eftir tveggja tíma umsátur komust fimm eftirlifendur út úr byggingunni en þeir voru skotnir til bana fyrir utan. Afganskir hermenn hafi staðið fyrir utan og fylgst með, án þess að gera nokkurn skapaðan hlut.

Hálfbróðir forsetans fíkniefnabarón?

Í kjölfarið var helmingur starfsmanna Sameinuðu þjóðanna í Afganistan sóttur og fluttur heim og endurkosningarnar blásnar af. Karzai var áfram forseti og niðurstöður fyrri atkvæðagreiðslu fengu að gilda.

Á sama tíma var yfirlýst markmið Breta að berjast gegn aukinni fíkniefnaframleiðslu og -sölu í landinu. Þegar sérsveit breska hersins hafi fundið heilt vöruhús fullt af ópíum nærri Kandahar, sem var í eigu hálfbróðurs forsetans, hafi öllum breskum diplómötum verið skipað að segja ekki orð. Ekki mætti tengja Karzai við fíkniefnaframleiðslu. 

Með hverju árinu sem leið höfðu Bandaríkin, Bretland, Kanada og fleiri NATO ríki dælt fjármagni í uppbyggingu í Afganistan. Í stjórnartíð Baracks Obama Bandaríkjaforseta var hermönnum svo fjölgað, þeir urðu 100 þúsund talsins í Afganistan þegar mest var. 

Og Karzai forseti Afganistan nýtti sér hersetuna, fór að tala gegn henni og þessum erlendu öflum sem myndu aldrei yfirgefa Afganistan. Of mikið væri undir: fjármunir, náttúrulegar auðlindir, landfræðileg lega Afganistan væri of góð. 

Þessa orðræðu hafi Talibanar nýtt sér. Þessi erlendu öfl myndu aldrei fara. Forsetinn segði það meira að segja sjálfur. Berjast þyrfti gegn þessum erlendu öflum. Nýliðum í röðum Talibana fjölgaði með hverju árinu. Og þegar allt kom til alls, þegar Bretar, Bandaríkjamenn og önnur vestræn öfl yfirgáfu landið féll það í hendur Talibana á örfáum vikum. 

„Fljótlega gæti versnandi ástand neytt Vesturveldin til að gera eitthvað sem þau hafa eytt síðustu tuttugu árum í að gera allt til að koma í veg fyrir: Að viðurkenna og styðja stjórn Talibana í Afganistan.“


Tengdar fréttir

Biðla til stjórnvalda að bjarga ættingjum sínum frá Afganistan

Hópur Afgana með íslenskan ríkisborgararétt krefst þess að stjórnvöld bjargi ættingjum sínum frá Afganistan. Fólkið sé í bráðri lífshættu eftir að Talibanar tóku völdin í landinu. Íslensk kona segir afganskan mág sinn í felum þar því hann óttist að verða tekinn af lífi vegna trúar sinnar.

Bregðast þurfi við í samstarfi við nágrannaþjóðir

Félagsmálaráðherra segir að íslensk stjórnvöld geti ekki brugðist við stöðunni í Afganistan öðruvísi en í samstarfi við aðrar nágrannaþjóðir. Staðan sé afar flókin enda engin hefðbundin flóttamannamóttaka þar ytra lengur og ekkert hefðbundið flug.

Talibanar segjast hafa unnið aftur norðurhéruð

Talsmaður talibana í Afganistan segir að þeir hafi náð aftur þremur héruðum í norðanverðu landinu sem uppreisnarhersveitir tóku í síðustu viku. Hersveitir andsnúnar talibönum eru enn í Panjshir-dal í Norður-Afganistan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×