Íslenski boltinn

Áslaug Munda á leið í Harvard - Kvaddi Blika með glæsimarki

Valur Páll Eiríksson skrifar
Breiðablik - Selfoss Pepsi Max deild kvenna sumar 2021 fótbolti KSÍ Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir
Breiðablik - Selfoss Pepsi Max deild kvenna sumar 2021 fótbolti KSÍ Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir Vísir/Hulda Margrét

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir átti stórleik, líkt og flestir aðrir leikmenn Breiðabliks, er liðið vann sannfærandi 8-1 sigur á Gintra í úrslitaleik um sæti í 2. umferð í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í Litáen í gær. Áslaug var að leika sinn síðasta leik fyrir Blikakonur í bili.

Áslaug Munda er á leið vestur um haf þar sem hún mun hefja nám við Harvard-háskóla í Cambridge í Massachusetts. Hún fer aðeins seinna út en venja er fyrir en hún fékk að klára þetta Evrópuverkefni með liðinu.

Það munaði heldur betur um hana í gær þar sem hún kom Breiðabliki 2-0 yfir í leiknum með þrumufleyg utan teigs áður en hún lagði upp þrjú mörk fyrir Öglu Maríu Albertsdóttur í 8-1 sigrinum.

Hún sendi kveðju á liðsfélaga sína eftir leik í gær á samfélagsmiðlinum Instagram þar sem segir: „Kveð uppáhaldsliðið mitt í mili með bestu Blikaknúsunum.“

Breiðablik mun mæta Osijek frá Króatíu í 2. umferð keppninnar en verður þar án Áslaugar. Sigur í einvíginu dugar til sætis í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í haust.

Mörkin úr leik Breiðabliks og Gintra má sjá að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×