Vísir náði tali af Rúnu Hauksdóttur Hvannberg fyrr í kvöld til að spyrjast fyrir um hvort stofnunin væri með það til skoðunar að veita mótefnalyfinu leyfi á Íslandi. Hún sagði að til að skoða það þyrfti stofnuninni að berast beiðni um leyfi fyrir notkun þess frá Landspítalanum en slík beiðni hefði ekki borist enn.
„En það er þannig að ef það kemur ósk um að nota þetta lyf, þá myndum við í öllum tilfellum veita það,“ segir hún. „Það væri til dæmis byggt á því að það eru ekki til mörg úrræði við Covid-19.“
Samkvæmt frétt The Guardian um leyfi bresku lyfjastofnunarinnar í gær segir að rannsóknir sýni að lyfið geti dregið úr líkum á spítalainnlögnum um allt að 70 prósent. Það virki sérstaklega vel ef það er gefið þeim sem fá einkenni Covid-19 mjög snemma í veikindaferlinu.
Lyfið virðist einnig flýta fyrir bata sjúklinga, í sumum tilfellum um allt að fjóra daga. Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, var gefið lyfið þegar hann veiktist af Covid-19 í fyrra.
Evrópusambandið hefur heimilað notkun lyfsins í neyð og Lyfjastofnun Evrópu er nú með það í prófunum.
Rúna segir að Lyfjastofnun Íslands myndi veita Landspítalanum leyfi til að nota lyfið ef honum þætti það æskilegt á grunni þessa leyfis Evrópusambandsins.