Diogo Jota og Sadio Mané skoruðu mörk Liverpool í nokkuð öruggum 2-0 sigri á Anfield í dag. Heimamenn þurftu þó að hafa fyrir hlutunum gegn Burnley-liði sem gaf lítið eftir og lét finna fyrir sér. Klopp segir Mike Dean, dómara leiksins, hafa leyft þeim að komast upp með full mikið. Ekkert gult spjald fór á loft í leiknum.
„Burnley verður aldrei lið sem hægt er að yfirspila, allavega ekki fyrir okkur, maður þarf að búa sig undir bardaga og við vorum klárir í það í dag í mjög erfiðum leik. Þú sást þessar tæklingar hjá Barnes og Wood á Virgil og Joel,“ segir Klopp og bætir við:
„Ég er hreint ekki viss um að við séum á réttri leið með svona ákvarðanir, það er eins og við séum að fara 10-15 ár aftur í tímann,“
Ekki sé hægt að leyfa hvað sem er til að leikurinn flæði
Klopp var þá spurður hvort það væri ekki gott að dæma minna til að viðhalda flæði í leiknum. Hann segir flæði ekki geta afsakað hvaða brot sem er.
„Þetta byrjaði allt þegar reglunum var breytt fyrir um tuttugu árum með það að leiðarljósi að vernda leikmennina. Mér finnst ekki rétt að hafa þetta svona, en ég get litlu breytt um það.“ segir Klopp sem tók þá dæmi frá leik Brentford og Arsenal um síðustu helgi þar sem Brentford skoraði annað mark sitt eftir langt innkast og leikmaður þeirra hélt Bernd Leno, markverði Arsenal.
Jurgen Klopp on Burnley : "Watch wrestling if you like these kinda things." pic.twitter.com/yyOalFtwbn
— SPORTbible (@sportbible) August 21, 2021
„Það er talað um að það verði að leyfa leiknum að flæða en það verður alltaf svona. Ég stend við það. Annað markið hjá Brentford, þar gerðu þeir frábærlega, en það verður að dæma brot. segir Klopp. Það er ekki hægt að halda í höndina á markverðinum og segja 'svona er fótbolti',“
„Við verðum að halda áfram að vernda leikmennina. Við getum ekki hætt því og sagt 'þetta er sko tækling, ég elska að sjá svona'. Horfðu á glímu ef þú fílar svona lagað.“ segir Klopp.
Liverpool er með fullt hús stiga eftir tvo leiki í deildinni eftir 3-0 sigur á Norwich í fyrstu umferð. Burnley er hins vegar án stiga.