Íslenski boltinn

Framarar tryggðu sér sæti í Pepsi Max deild karla

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fram tryggði sér sæti í deild þeirra bestu með sigri gegn Selfyssingum.
Fram tryggði sér sæti í deild þeirra bestu með sigri gegn Selfyssingum. Vísir/Haraldur Guðjónsson

Framarar munu leika í deild þeirra bestu á næsta tímabili, en liðið tryggði sér sæti í Pepsi Max deildinni að ári með 2-1 sigri gegn Selfyssingum. Þá unnu tíu leikmenn Grindavíkur 2-1 sigur gegn Þrótti R. og Grótta vann einnig 2-1 sigur gegn Kórdrengjum.

Alexander Þorláksson kom Fram í 1-0 eftir aðeins þriggja mínútna leik, og þannig var staðan þegar flautað var til hálfleiks. Tvíburabróðir Alexanders, Indriði Þorláksson, tvöfaldaði forystu Fram á 55. mínútu.

Gary Martin minnkaði muninn fyrir Selfyssinga á 67. mínút, en nær komust þeir ekki og sæti Fram í efstu deild því tryggt.

Í leik Grindavíkur og Þróttar kom Róbert Hauksson fallbaráttuliði Þróttara yfir gegn á 26. mínútu, og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Sigurður Bjartu Hallsson kom Grindvíkingum yfir með tveim mörkum á fjögurra mínútna kafla í seinni hálfleik, áður en liðsfélagi hans Jósef Kristinn Jósefsson, fékk að líta rautt spjald.

Það kom þó ekki að sök fyrir Grindvíkinga sem unnu góðan 2-1 sigur og sitja í sjöunda sæti deildarinnar með 23 stig. Þróttarar eru enn í næst neðsta sæti, fimm stigum á eftir Selfyssingum þegar aðeins fimm leikir eru eftir.

Í þriðja leik kvöldsins kom Valtýr Már Michaelsson Gróttu yfir gegn Kórdrengjum strax á þriðju mínútu.

Þórir Rafn Þórisson jafnaði metin fyrir Kórdrengi þegar tíu mínútur voru til leiksloka, en Pétur Theódór ÁRnason tryggði Gróttu 2-1 sigur á 86. mínútu.

Grótta er í fimmta sæti með 26 stig, tveimur stigum minna en Kórdrengir í þriðja sæti. Kórdrengir eru nú sjö stigum frá öðru sætinu sem gefur sæti í efstu deild, og brekkan orðin brattari eftir þetta tap.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×