Jota og Mané á skotskónum í sigri á Burnley

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sadio Mané fagnar sínu fyrsta marki á leiktíðinni. Diogo Jota, sem er í forgrunni, skoraði annan leikinn í röð.
Sadio Mané fagnar sínu fyrsta marki á leiktíðinni. Diogo Jota, sem er í forgrunni, skoraði annan leikinn í röð. Andrew Powell/Liverpool FC via Getty Images

Liverpool vann 2-0 sigur á Burnley er liðin mættust í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta á Anfield í dag. Sigur liðsins var síst of stór.

Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley sem heimsótti Anfield í dag. Þar var mikið um dýrðir enda fyrsti heimaleikur Liverpool með fullan völl í rúmt ár.

Burnley menn bitu frá sér í upphafi leiks og gerðu heimamönnum erfitt fyrir. Liverpool hafði vart skapað sér færi þegar liðið komst hins vegar yfir á 18. mínútu. Grikkinn Kostas Tsimikas, sem hélt sæti sínu í byrjunarliði Liverpool í fjarveru Andrew Robertson, átti þá frábæra fyrirgjöf sem fann kollinn á Portúgalanum Diogo Jota sem skallaði boltann í markið.

Jota var þar að skora annan leikinn í röð, eftir að hafa skorað fyrsta mark Liverpool í 3-0 sigri á Norwich í fyrstu umferð.

Hinn 18 ára gamli Harvey Elliott var í byrjunarliði Liverpool í fyrsta sinn í dag og hann átti frábæra sendingu inn fyrir á Mohamed Salah tæpum tíu mínútum eftir mark Jota. Salah afgreiddi boltann laglega í fjærhornið en eftir endurskoðun myndbandsdómara var markið dæmt af. 1-0 stóð í hálfleik.

Ashley Barnes, framherji Burnley, náði að koma boltanum í netið þegar aðeins 50 sekúndur voru liðnar af síðari hálfleik en var réttilega flaggaður rangstæður.

Eftir það var Liverpool með öll völd á vellinum og hafði fengið fjölmörg tækifæri til að bæta við marki. Það var ekki fyrr en á 69. mínútu sem netmöskvarnir fundust á ný. Þar var að verki Sadio Mané, með sitt fyrsta mark á leiktíðinni, sem afgreiddi boltann vel af stuttu færi eftir laglega stoðsendingu Trent Alexander-Arnold.

Liverpool var líklegra til að bæta við marki en Burnley að bæta við það sem eftir lifði leiks. 2-0 urðu þó úrslit leiksins, Liverpool í vil, og var sá sigur síst of stór miðað við gang leiksins.

Liverpool er eftir sigurinn með sex stig eftir tvo leiki en Burnley er án stiga.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.