Íslenski boltinn

Þrjú efstu liðin með sigra í Lengjudeild kvenna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
FH rétt marði sigur gegn fallbaráttuliði HK.
FH rétt marði sigur gegn fallbaráttuliði HK. Vísir/Anton

Þrjú efstu lið Lengjudeildar kvenna, KR, FH og Afturelding, unnu öll sína leiki í kvöld. Afturelding vann 3-0 sigur gegn botnliði Augnabliks, KR vann 6-0 stórsigur gegn Víking R. og FH vann 3-2 sigur gegn fallbaráttuliði HK.

Taylor Lynne Bennett fór á kostum í liði Aftureldingar og skoraði öll þrjú mörk liðsins í 3-0 sigri. Afturelding er því enn í öðru sæti með 34 stig.

Markaskorunin dreifðist aðins betur í liði KR sem vann 6-0 stórsigur gegn Víkingum, en það voru sex mismunandi markaskorarar.

Aideen Hogan Keane og Unnur Elva Traustadóttir sáu til þess að staðan var 2-0 eftir aðeins sex mínútna leik. Kristín Sverrisdóttir og Bergdís Fanney Einarsdóttir breyttu stöðunni svo í 4-0 fyrir hálfleik.

Sandra Dögg Bjarnadóttir og Karítas Ingvarsdóttir sáu um markaskorun í seinni hálfleik og niðurstaðan því 6-0 sigur KR, sem er í þriðja sæti Lengjudeildarinnar með 33 stig, tveimur stigum minna en FH.

FH lenti í örlitlum vandræðum með fallbaráttulið HK. Magðalena Ólafsdóttir kom HK yfir eftir sex mínútna leik, og þegar rúmlega tuttugu mínútur voru liðnar tvöfaldaði Bryndís Gréta Björgvinsdóttir forystuna.

Mörk frá Rannveigu Bjarnadóttir og Sigríði Láru Garðarsdóttir með fjögurra mínútna millibili rétt fyrir hálfleik tryggðu það þó að staðan var jöfn þegar gengið var til búningsherbergja.

Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir tryggði FH-ingum svo sigurinn af vítapunktinum á 76. mínútu og lokatölur 3-2. FH heldur því toppsætinu með 35 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×