Enski boltinn

Ødega­ard búinn að semja við Arsenal

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arsenal er í þann mund að ganga frá kaupum á Norðmanninum.
Arsenal er í þann mund að ganga frá kaupum á Norðmanninum. Twitter/@arsenal

Enska knattspyrnufélagið Arsenal er við það að festa kaup á norska sóknartengiliðnum Martin Ødegaard. Skrifar hann undir fimm ára samning við félagið. Sá norski mun kosta Arsenal tæplega 40 milljónir evra. 

Samkvæmt blaðamanninum Fabrizio Romano er hinn 22 ára gamli Ødegaard búinn að semja við Arsenal um kaup og kjör. Þá hafa félögin náð saman og því ætti hann að verða tilkynntur sem leikmaður Arsenal innan tíðar. 

Norðmaðurinn getur ekki beðið eftir að komast aftur til Lundúna þar sem hann var á láni á síðustu leiktíð.

Eftir að hafa slegið í gegn í heimalandinu, þá aðeins 15 ára gamall, ákvað Ødegaard að taka gylliboði Real Madrid í janúar 2015. Þar hefur lítið gengið upp og leikmaðurinn verið lánaður til Hollands tvívegis, Real Sociedad á Spáni og loks Arsenal á síðustu leiktíð. Þar spilaði hann 20 leiki, skoraði tvö mörk og lagði upp tvö.

Eins og hefur verið vel fjallað um er fjárhagsstaða Real Madrid ekki góð og félagið tilbúið að selja leikmenn sem það reiknar ekki með að verði í lykilhlutverki í vetur. Norðmaðurinn er einn af þeim.

Nú virðist nær öruggt að hann verði fjórði leikmaðurinn sem Mikel Arteta fær til Arsenal í vetur. Hvort Arteta fjárfesti í fleiri leikmönnum verður að koma í ljós. Eftir tap gegn nýliðum Brentford í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar þá bíður lærisveina Arteta ærið verkefni á sunnudag er liðið mætir Evrópumeisturum Chelsea.

Mögulega mæta bæði lið með gamla nýja leikmenn til leiks, Ødegaard hjá Arsenal og Romelu Lukaku hjá Chelsea.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.