Enski boltinn

Segir Solskjær hafa sýnt veikleika með því að leyfa Phil Jones að vera með stæla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raphael Varane með Manchester United treyju númer nítján.
Raphael Varane með Manchester United treyju númer nítján. AP/Jon Super

Breski sjónvarpsmaðurinn Richard Keys, sem er þekktur fyrir störf sín í kringum enska boltann fyrir BBC, ITV og Sky, leyfði sér að gagnrýna knattspyrnustjóra Manchester United í bloggfærslu sinni þrátt fyrir að United hafi unnið 5-1 sigur um helgina.

Keys hrósaði United vissulega fyrir frammistöðu sína og þar á meðal Paul Pogba sem hann kenndi samt um markið sem Leeds skoraði. Keys sagði að það verði ekki betri sending á tímabilinu en sú frá Pogba á Mason Greenwood.

Það sem pirraði þennan reynslumikla sjónvarpsmanns var hins vegar treyjumál franska miðvarðarins Raphaël Varane.

„Það er bata eitt smámál sem gæti orðið stærra. Ef Varane vill vera númer fjögur, sem okkur er sagt að hann vill, þá ætti hann að fá þá treyju,“ byrjaði Richard Keys í pistli sínum.

Þegar Varane var kynntur til leiks á Old Trafford um helgina þá hélt hann á treyju númer nítján en ekki treyju númer fjögur. Keys snéri gagnrýni sinni á norska knattspyrnustjórann.

„Solskjær átti að segja við Phil Jones: Þú getur valið öll númer yfir þrjátíu. Þú ert ekki í mínum plönum og þú spilar ekki,“ skrifaði Keys.

„Þetta voru veikleikamerki hjá Solskjær og það er i tengslum við þá staðreynd sem ég býst við að þetta gæti orðið eitthvað meira. Hann verður að vera meira miskunnarlaus,“ skrifaði Keys.

Jú það eru kannski margir búnir að steingleyma því að Phil Jones er enn leikmaður Mancheter United og hann neitaði að láta franska miðvörðinn fá fjarkann sinn.

Jones sem hefur ekki spilað með liðinu síðan í janúar 2020 og hefur verið meiddur í átján mánuði. Hann er hins vegar með samning við Manchester United til ársins 2023 og fjarkinn losnar líklega ekki fyrr en þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×