Enski boltinn

Hrósaði Mo Salah fyrir að sýna hvorki eigingirni né leikaraskap í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah fagnar sögulegu marki sínu á móti Norwich City en hann varð þá fyrstur til að skora í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar fimm ár í röð.
Mohamed Salah fagnar sögulegu marki sínu á móti Norwich City en hann varð þá fyrstur til að skora í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar fimm ár í röð. AP/Rui Vieira

Garth Crooks sér um að velja lið umferðarinnar á vef breska ríkisútvarpsins. Manchester United og Liverpool áttu flesta leikmann í fyrsta úrvalsliði tímabilsins.

Manchester United er auðvitað með Bruno Fernandes og Paul Pogba í liðinu en Bruno skoraði þrennu og Pogba lagði upp fjögur mörk í 5-1 sigri á Leeds United.

„Ég hef sagt það áður og ég segi það áfram. Þegar Paul Pogba finnur taktinn þá er ekki hægt að verjast honum. Hann átti fleiri stoðsendingar í leiknum á móti Leeds en á öllu síðasta tímabili. Hvernig er það hægt,“ spurði Garth Crooks.

Tottenham vann 1-0 sigur á Manchester City og á tvo leikmenn í liðinu, varnarmanninn Japhet Tanganga og Son Heung-min sem skoraði sigurmarkið. Chelsea vann líka góðan sigur og er með þá Trevoh Chalobah og Marcos Alonso í liðinu.

Virgil van Dijk spilaði sinn fyrsta leik í tíu mánuði og er í liðinu og það er líka markvörður Liverpool Alisson. Þriðji Liverpool maðurinn er síðan framherjinn Mohamed Salah.

Salah skoraði eitt mark og lagði upp tvö í 3-0 sigri á nýliðum Norwich. Hann varð fyrsti leikmaðurinn til að skora í fyrstu umferðinni fimm ár í röð.

Crooks hrósaði Salah sérstaklega fyrir tvennt.

„Reglulegir lesendur vita að ég hef látið hluti í leik Salah pirra mig en á móti Norwich þá sá ég hvorki eigingirni hjá honum né leikaraskap. Hann leitaði af liðsfélögum sínum fyrir framan markið og reyndi ekki að veiða ódýrar vítaspyrnur,“ skrifaði Garth Crooks.

„Það sem við sáum var leikmaðurinn sem kom fyrst til Liverpool, leikmaður sem spilar fyrst fyrir liðið og hann fékk að lokum markið sem hann átti skilið. Ég vona að hann haldi þessu áfram,“ skrifaði Crooks.

Lið umferðarinnar hjá BBC:

  • Markið: Alisson (Liverpool)
  • Vörnin: Japhet Tanganga (Tottenham), Virgil van Dijk (Liverpool), Trevoh Chalobah (Chelsea).
  • Miðjan: Son Heung-min (Tottenham), Paul Pogba (Manchester United), Bruno Fernandes (Manchester United), Marcos Alonso (Chelsea).
  • Sóknin: Mohamed Salah (Liverpool), Mason Greenwood (Manchester United), Richarlison (Everton).Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.