Íslenski boltinn

Leiknismenn hafa ekki skorað utan Breiðholtsins síðan í maí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Hlöðversson og félagar í Leikni hafa verið í miklum vandræðum á útivelli í sumar.
Brynjar Hlöðversson og félagar í Leikni hafa verið í miklum vandræðum á útivelli í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Leiknir er með níu sinnum fleiri stig á heimavelli en á útivelli í fyrstu sautján umferðum Pepsi Max deildar karla í fótbolta.

Leiknismenn fengu stóran skell í Kaplakrikanum í gærkvöldi þegar þeir töpuðu 5-0 á móti FH, liði sem var fyrir neðan þá í töflunni fyrir leikinn.

Leiknismenn eru í nokkuð góðum málum um miðja deild sem er ótrúleg staða miðað við skelfilegt gengi liðsins á öðrum völlum en Domusnovavellinum í Austurberginu.

Uppskera Leiknismanna í átta útileikjum í deildinni í vetur eru samtals tvö stig og eitt skorað mark.

Á sama tíma og liðið er með næstbesta árangurinn á heimavelli (19 stig og 15 mörk) þá er liðið í neðsta sæti yfir stigasöfnun í útileikjum.

Breiðholtsliðið hefur aðeins náð í átta prósent stiga í boði á útivelli og markatalan er fimmtán mörk í mínus, eitt mark á móti sextán. Liðið tapaði líka 2-0 í eina bikarleiknum sínum sem var á útivelli á móti Val.

Eina mark Leiknisliðsins á útivelli í sumar skoraði Sævar Atli Magnússon í 2-1 tapi á móti HK í Kórnum 30. maí síðastliðinn.

Markið hans kom á 69. mínútu leiksins en Leiknir var þá 2-0 undir. Síðan eru Leiknismenn búnir að spila fjóra útileiki í röð án þess að skora. Það er nú liðin 381 mínúta síðan að Leiknir skoraði utan Breiðholts.

Leiknisliðið beið líka í 339 mínútu eftir fyrsta útivallarmarkinu sínu. Það er enn það eina hjá liðinu í sumar.

Ef við tökum með bikarleikinn á móti Val þá eru fimm heilir leikir og samtals 471 mínúta síðan að Leiknisliðið skoraði í útileik í sumar.

Leiknismenn eiga eftir þrjá útileiki í Pepsi Max deildinni og þeir eru á móti KR, ÍA og Víkingi. Liðið á síðan eftir heimaleiki á móti HK og Keflavík.

  • Flest stig á heimavelli í Pepsi Max deild karla í sumar:
  • 1. Valur 23 stig
  • 2. Leiknir 19 stig
  • 3. Breiðablik 18 stig
  • 3. Víkingur R. 18 stig
  • -
  • Fæst stig á útivelli í Pepsi Max deild karla í sumar:
  • 12. Leiknir 2 stig
  • 11. ÍA 3 stig
  • 9. Fylkir 4 stig
  • 9. Keflavík 4 stig
  • -
  • Fæst mörk skoruð á útivelli í Pepsi Max deild karla í sumar:
  • 12. Leiknir 1 mark
  • 10. ÍA 6 mörk
  • 10. Fylkir 6 mörk
  • 9. Stjarnan 7 mörk



Fleiri fréttir

Sjá meira


×