Innlent

Fjórtán ára með þrjátíu sláttugarða í áskrift á Selfossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Böðvar er með um 30 garða í áskrift á Selfossi, sem hann slær reglulega.
Böðvar er með um 30 garða í áskrift á Selfossi, sem hann slær reglulega. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Fjórtán ára strákur á Selfossi hefur haft nóg að gera í sumar við að slá garða fyrir íbúa bæjarins. Hann fer á milli húsa á vespunni sinni með sláttuvélina á kerru aftan í. Mikil ánægja er með þjónustu stráksins.

Böðvar Thor Guðmundsson dó ekki ráðalaus í sumar þegar hann var að spá í hvað hann ætti að gera til að afla sér peninga. Hann ákvað að bjóða upp á slátt í görðum á Selfossi. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Hann setur grasið líka í poka og kemur því í burtu.

„Þetta hefur bara gengið mjög vel. Ég er að slá svona þrjátíu garða í áskrift á tveggja vikna fresti. Ég var að nota áður sláttuvélina hjá afa mínum og hann smíðaði kerru fyrir mig sem ég festi aftan í vespu þar sem ég keyri um og slæ garða fyrir fólk en nú er ég með nýja og kraftmeiri vél“, segir Böðvar.

Böðvari hefur gengið vel að slá í sumar og er duglegur að safna sér peningum, sem fara væntanlega í kaup á bíl þegar hann verður 17 ára.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvernig datt honum í hug að fara út í þessa vinnu?

„Þetta byrjaði fyrst með því að slá hjá afa og ömmu og síðan hjá frænku minni og síðan poppaði upp einhver hugmynd um að ég færi að bjóða upp á þessa þjónustu og ég ákvað því bara að slá til.“

En hvað ætlar Böðvar að gera við peningana, sem hann hefur safnað í sumar í slættinum ?

„Ég er aðallega að safna núna en það endar sennilega bara með því að ég kaupi mér bíl þegar ég verð orðinn 17 ára,“ segir Böðvar.

Mikil ánægja er með sláttinn hjá Böðvari hjá viðskiptavinum hans.

„Já, þetta er bara til fyrirmyndar og frábært að sjá hvað Böðvar er að standa sig vel og er samviskusamur. Það er líka gaman að geta styrkt unga fólkið með því að fá hann til að slá,“ segir Kristinn Gunnarsson í tjarnahverfinu á Selfossi.

Kristinn Gunnarsson gefur Böðvari sín bestu meðmæli í slættinum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.