Erlent

Undir­búa endur­bólu­setningu við­kvæmra hópa

Kjartan Kjartansson skrifar
Anthony Fauci, aðalsóttvarnasérfræðingur Bandaríkjastjórnar.
Anthony Fauci, aðalsóttvarnasérfræðingur Bandaríkjastjórnar. AP/J. Scott Applewhite

Bandarísk sóttvarnayfirvöld undirbúa nú endurbólusetningu fólks með skerta ónæmiskerfisstarfsemi eins fljótt og hægt er. Kórónuveirusmitum fjölgar nú ört vestanhafs eins og víða annars staðar. 

Lyfjayfirvöld í Bandaríkjunum eiga enn eftir að gefa bóluefnum gegn kórónuveirunni fullt markaðsleyfi eða breyta bráðabirgðamarkaðsleyfi þeirra til að yfirvöld geti byrjað að mæla með endurbólusetningu.

„Það er gríðarlega mikilægt fyrir okkur að gefa þessum einstaklingum örvunarskammtana sína og við vinnum núna að því,“ sagði Anthony Fauci, aðalsóttvarnasérfræðingur Bandaríkjastjórnar.

Ástæðan er sú að bóluefnin veiti mögulega ekki nógu mikla vernd þeim sem eru með skerta starfsemi ónæmiskerfis, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Bandaríkin eru í hópi ríkja eins og Þýskalands, Frakklands, Ísraels og Íslands sem ætla að hunsa tilmæli Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um að þau bíði með endurbólusetningu til þess að skerða ekki framboð á bóluefni til þróunarríkja.

Talsmaður Bandaríkjastjórnar sagði í gær að hún teldi sig eiga skammta af bóluefni aflögu fyrir önnur ríki jafnvel þó að hún ráðist í endurbólusetningu eigin þegna.

Covid-smitum fjölgaði um 43% á milli vikna í Bandaríkjunum í þessari viku og dauðsföllum um 39%. Þau hundrað þúsund smit sem greindust í gær voru þau flestu sem greinst hafa á einum degi í sex mánuði þar í landi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×