Enski boltinn

Ekkert smit í herbúðum Man Utd

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ekkert Covid vesen á þessum bæ.
Ekkert Covid vesen á þessum bæ. vísir/getty

Enginn leikmaður Manchester United greindist smitaður af kórónuveirunni en grunur lék á hópsmiti í aðalliðshóp félagsins eftir daglegt flýtipróf.

Vegna gruns um hópsmit var fyrirhuguðum æfingaleik liðsins gegn Preston North End aflýst til öryggis en liðin áttu að mætast á morgun, laugardag.

Gengust allir leikmenn liðsins undir svokallað PCR próf í dag í kjölfar þess að niðurstöður úr flýtiprófum þóttu gefa til kynna að hópsmit væri komið upp í leikmannahópnum.

Í tilkynningu félagsins nú í kvöld segir að enginn leikmaður hafi greinst jákvæður úr PCR prófunum og því geti liðið aftur hafið æfingar af fullum krafti.

Man Utd hefur leik í ensku úrvalsdeildinni þann 14.ágúst næstkomandi með nágrannaslag við Leeds United á Old Trafford. Á liðið eftir að leika æfingaleik við Everton áður en alvaran hefst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×