Erlent

Gagnrýninn milljarðamæringur dæmdur í átján ára fangelsi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sun Dawu er á leið í fangelsi.
Sun Dawu er á leið í fangelsi. Ap/Dawu Group

Sun Dawu, kínverskur milljarðamæringur sem hefur verið gagnrýninn á stjórnvöld þar í landi, hefur verið dæmdur í átján ára fangelsi fyrir ýmsar sakir, þar á meðal fyrir að „ýta undir ósætti“.

Dawu er eigandi eins stærsta landbúnaðarfyrirtæki Kína, sem aðallega er starfrækt í héraðinu Hebei í norðurhluta landsins. Dawu hefur í gegnum tíðina verið gagnrýninn á yfirvöld þar í landi og meðal annars rætt opinskátt um mannréttindi og önnur málefni sem þykja viðkvæm í Kína að mati stjórnvalda.

Dawu var fundinn sekur um að „ýta undir ósætti“ að því er fram kemur í frétt BBC . Honum var einnig gefið að sök að hafa nýtt sér jarðir undir landbúnað án leyfis, safnað saman hópi manna til að ráðast að ríkisstofnunum og að hafa komið í veg fyrir að embættismenn gætu unnið vinnu sína. Fyrir utan fangelsisvistana þarf hann að greiða 3,1 milljónir yuan í sekt, um 60 milljónir íslenskra króna.

Hefur hann átt í deilum við yfirvöld í Hebei-héraði vegna deilna um starfsemi opinberra aðila í landbúnaði. Hefur hann sagt að fjöldi starfsmanna á hans vegum hafi slasast eftir átök við lögregu vegna málsins á síðasta ári.

Dawu er einn örfárra sem gagnrýndi kínversk yfirvöld árið 2019 fyrir viðbrögð þeirra svínaflensufaraldri sem kom upp árið 2019, og hafði töluverð áhrif á rekstur fyrirtækis hans.

Sjálfur segist hann vera fyrirmyndarmeðlimur í kommúnistaflokki Kína sem fer með völd í landinu. Hann lýsti sjálfan sig saklausan af flestum ákæruatriðu, en sagðist þó vera sekur um að hafa gert ákveðin mistök, þar á meðal vegna færslna á internetinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×