Íslenski boltinn

Tíu leikmenn Vestra unnu Gróttu eftir ótrúlegan lokakafla

Valur Páll Eiríksson skrifar
ibv_1-3_vestri

Vestri vann 4-3 sigur á Gróttu í síðari leik kvöldsins í Lengjudeild karla í fótbolta á Ísafirði. Sigurinn skýtur vestanmönnum upp í 4. sæti deildarinnar.

Vestri var með 19 stig fyrir leik kvöldsins í 7. sæti deildarinnar en Grótta gat farið upp fyrir þá með sigri, en Seltirningar voru sæti neðar með 17 stig.

Pétur Bjarnason skoraði eina mark fyrri hálfleiks er Vestri leiddi 1-0 í hléi. Hann bætti öðru marki við á á 56. mínútu og heimamenn því í vænlegri stöðu.

Jesus Meneses, leikmaður Vestra, fékk hins vegar sitt annað gula spjald, og þar með rautt á 74. mínútu. Við tóku býsna skrautlegar lokamínútur í kjölfarið. Meneses fékk spjaldið fyrir brot innan teigs og skoraði Pétur Theódór Árnason, markahæsti leikmaður deildarinnar, af punktinum til að minnka muninn.

Hann bætti öðru marki sínu við níu mínútum síðar, á 83. mínútu, og staðan 2-2. Benedikt V. Warén skoraði aftur á móti strax í næstu sókn fyrir Vestra, á 84. mínútu, og á 88. mínútu fullkomnaði Pétur Bjarnason þrennu sína til að koma tíu Vestramönnum 4-2 yfir. Arnar Þór Helgason, fyrirliði Gróttu, skoraði mínútu síðar en nær komust Gróttumenn ekki.

Vestri vann því 4-3 sigur eftir ótrúlegan lokakafla og fer liðið með sigrinum upp í 4. sæti deildarinnar með 22 stig eftir 14 leiki. Kórdrengir eru með sama stigafjölda en betri markatölu sætinu ofar, en þeir eiga tvo leiki inni á Vestra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×