Erlent

„Hollywood-morðinginn“ dæmdur til dauða

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Michael Gargiulo var sakfelldur eftir að Ashton Kutcher bar vitni fyrir dómi.
Michael Gargiulo var sakfelldur eftir að Ashton Kutcher bar vitni fyrir dómi. Getty/Frederick M. Brown

Maður sem myrti tvær konur, og fékk viðurnefnið Hollywood Ripper, í byrjun aldarinnar hefur verið dæmdur til dauða. Hann var sakfelldur fyrir morðin, og tilraun til morðs, árið 2019 en vegna faraldursins var uppkvaðningu refsingar frestað þar til nú. 

Málið vakti mikla athygli á sínum tíma, sérstaklega vegna þess að fyrsta fórnarlamb Michaels Gargiulo, eða Hollywood Ripper, hún Ashley Ellerin hafði ætlað á stefnumóti með leikaranum Ashton Kutcher sama kvöld og hún var myrt. Kutcher bar síðar vitni fyrir dómi. Fréttastofa CNN greinir frá. 

Gargiulo heldur enn fram sakleysi sínu. Saksóknarar í málinu lýstu honum fyrir dómi sem sjarmerandi manni sem hafði lokkað konur í Los Angeles og þóst vera vinalegur nágranni eða einstaklega handlaginn, áður en hann braust inn á heimili þeirra og stakk þær til dauða með hníf. 

Larry Paul Fidler, hæstaréttardómari í Los Angeles, kvað upp dóminn í gær og neitaði beiðni Gargiulo um að hann fengi ný réttarhöld. Gargiulo var sakfelldur fyrir morðin á Ashley Ellerin, 22 ára, Mariu Bruno, 32 ára, og fyrir að hafa reynt að myrða hina 26 ára gömlu Michelle Murphy árið 2008. 

Málið vakti eins og áður segir mikla athygli vegna tengingar eins fórnarlambanna við leikarann Ashton Kutcher. Kutcher bar eftirminnilega vitni fyrir dómi og lýsti því þegar hann fór heim til Ellerin, kvöldið sem hún var myrt, til að athuga með hana en hún hafði ekki hitt hann á stefnumótinu, eins og planað var. 

Hann lýsti því að hann hafi hringt á lögregluna þegar hann áttaði sig á hvað hafði gerst. 

„Herra Kutcher leit inn um gluggann og sá það sem hann hélt að væri rauðvínsblettur á gólfinu,“ sagði Dan Akemon, saksóknari í réttarsal. „Nú teljum við hins vegar, og sönnunargögnin sýna það, að þetta var blóð og Ashley hafði þegar verið myrt.“

Gargiulo er talinn lengi hafa haft hugann við morð en hann hefur verið ákærður í Illinois fyrir morðið á 18 ára gamalli stúlku árið 1993. Hann er talinn hafa stungið hana ítrekað með eggvopni fyrir utan útidyrnar heima hjá henni. Gargiulo bíður þess nú að málið verði tekið fyrir dóm. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×