Íslenski boltinn

Tímabilinu lokið hjá Hrannari: „Einn mesti sársauki sem ég hef fundið“

Sindri Sverrisson skrifar
Hrannar Björn Steingrímsson meiddist upphaflega í hné í leik á móti KR snemma á leiktíðinni en þá var talið að innra liðband hefði skaddast.
Hrannar Björn Steingrímsson meiddist upphaflega í hné í leik á móti KR snemma á leiktíðinni en þá var talið að innra liðband hefði skaddast. vísir/hulda margrét

Hrannar Björn Steingrímsson, leikmaður KA, hefur sett sér það markmið að vera klár í slaginn þegar nýtt Íslandsmót í fótbolta hefst næsta vor. Hann er með slitið krossband í hné.

Hrannar greinir frá þessu í viðtali við Fótbolta.net í dag. Hann meiddist á æfingu á „skraufþurru gervigrasinu upp á KA-svæðinu,“ eins og hann orðar það, þegar hann fékk leikmann af fullum þunga á löppina. „Það er sennilega einn mesti sársauki sem ég hef fundið á ævinni, þetta var bara viðbjóður,“ sagði Hrannar við Fótbolta.net.

Auk þess sem að krossband er slitið þá er liðþófi í hnénu rifinn og Hrannar með beinmar. Þá er grunur um lítið beinbrot í sköflungi og lærbeini.

Krossbandsslitin þýða að búast má við því að Hrannar verði frá keppni í níu mánuði. „Núna setur maður bara stefnuna á næsta tímabil. Það er stefnan að vera kominn í hóp í fyrstu leikjunum á næsta tímabili,“ sagði Hrannar.

Hrannar, sem er 29 ára bakvörður, er uppalinn hjá Völsungi en kom til KA árið 2014 og hefur verið fastamaður í liðinu síðan þá. Hann á að baki 141 deildarleik fyrir KA, þar af 78 í efstu deild, en meiðsli hafa truflað hann í sumar og hann aðeins spilað þrjá deildarleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×