Erlent

Kjallarinn hjá Sjöfn fullur af vatni og ástandið á svæðinu hræðilegt

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Það er óhætt að segja að það sé allt á floti í þýska bænum Inden.
Það er óhætt að segja að það sé allt á floti í þýska bænum Inden. Vísir/Sjöfn

Fleiri en hundrað eru látin í miklum flóðum í Belgíu, Hollandi, Lúxemborg og vesturhluta Þýskalands. Sjöfn Mueller Thor býr vestast í Þýskalandi og hefur staðið í ströngu við að dæla vatni úr kjallaranum hjá sér. 

Langflest hinna látnu voru Þjóðverjar, eða 93. Tólf eru sömuleiðis látin í Belgíu. Björgunarstarf á svæðinu hefur verið afar umfangsmikið enda hefur fjöldi húsa hrunið og fólk ýmist festst í rústunum eða uppi á húsþökum. Mikils fjölda er enn saknað og heilu bæirnir eru í rúst.

Sjöfn er prestur Íslendinga í Lúxemborg og býr í þýska bænum Inden, nærri landamærunum við Belgíu, Holland og Lúxemborg. Áin sem rennur í gegnum bæinn flæddi yfir bakka sína.

„Núna er vatnið að byrja að ganga til baka og fólk er að reyna að pumpa upp úr kjöllurum sínum. Allar pumpur eru í notkun eins og er enda allir kjallarar fullir,“ segir Sjöfn. 

Áin Inde, sem rennur í gegnum bæinn, hafi nú gengið töluvert til baka.

„Hún braust hérna í gær niður í kolanámuna sem er við bæinn og það var mikill léttir því þá fór vatnið að ganga til baka. Þá var það komið upp á hæðina hjá okkur. En það var sömuleiðis hræðilegt því það varð manntjón þarna niðri. Þar var maður sem fórst.“

Áin hafi farið úr farveginum og ekki sé ljóst hvort hún fari aftur í sinn farveg. Sjöfn segir langtímaáhrif flóðanna verða mikil í bænum enda sé óvíst að hægt verði að nýta kolanámuna aftur. Fjöldi gæti misst vinnuna.

Vatn flæddi inn í kjallarann hjá Sjöfn af krafti. „Maður hugsar kannski að aðrir hafi lent verr í því en við. Þetta er bara allt dót. Kjallarinn fylltist alveg, við náðum að hlaupa upp með jóladótið, það var allt. Allt annað var niðri. Herbergi dóttur minnar er þarna niðri. Það er allt ónýtt,“ segir Sjöfn. 

Húsið sé prestbústaður og fjölskyldan eigi það því ekki. Hvorki kirkjan né prestsbústaðurinn séu tryggð og gólfin séu öll ónýt.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×