Erlent

Kínverskir feðgar sameinaðir 24 árum eftir að syninum var rænt

Árni Sæberg skrifar
Feðgarnir féllust í faðma á fagnaðarfundi.
Feðgarnir féllust í faðma á fagnaðarfundi. Ríkissjónvarp Kína

Guo Gangtang hefur fundið son sinn Guo Xinzhen eftir 24 ára leit. Syninum var rænt fyrir utan fjölskylduheimilið árið 1997 þegar hann var aðeins tveggja ára gamall.

Guo Gangtang hefur eitt síðustu 24 árum í að ferðast um Kína á mótórhjóli í leit að syni sínum. Á leit sinni ferðaðist hann um 500 þúsund kílómetra á tíu mótorhjólum. 

Fagnaðarfundur feðganna fór fram fyrir framan myndavélar í dag í heimahéraði þeirra. Myndefni af atvikinu var sýnt um allt Kína og hefur málið vakið gríðarlega athygli í landinu.

Árið 2015 var málið líka í brennidepli í landinu þegar það varð efniviður kvikmyndarinnar Missir og ást með stórstjörnunni Andy Lau í aðalhlutverki. Lau sagði í dag að hann væri „ótrúlega glaður og innblásinn“ eftir að hafa heyrt gleðifréttirnar. Þá nýtti hann frægð sína til að vekja athygli aðgerðum kínverskra stjórnvalda í baráttunni gegn mansali.

Barnsrán hafa verið viðvarandi vandamál í Kína í marga áratugi en þúsundum barna er rænt þar á ári hverju. Kínversk stjórnvöld segja þó að með hjálp nútímatækni gangi sífellt betur að sameina fjölskyldur sem barnaræningjar hafa sundrað. 

Faðirinn er ekki reiður fósturfjölskyldu sonar hans

„Nú þegar strákurinn minn hefur verið fundinn verður allt glaðlegt héðan í frá,“ sagði Guo Gangtang við kínverska fjölmiðla í dag. Þá bætti hann við að hann myndi líta á parið sem ól son hans upp sem eigin fjölskyldumeðlimi.

Árið 2012 setti Gangtang á laggirnar vefsíðu sem er ætlað að aðstoða fjölskyldur að leita að týndum börnum.

Yfirvöld í Kína hafa gefið út að kennsl hafi verið borin á soninn með erfðafræðirannsókn og að tvær manneskjur væru í haldi grunaðar um að hafa rænt frengnum árið 1997.

Samkvæmt kínverskum fjölmiðlum var það kona að nafni Tang sem rændi Guo Xinzhen fyrir utan heimili hans fyrir 24 árum. Hún á svo að hafa, ásamt kærasta sínum, selt hann fjölskyldu í næsta héraði við heimahérað hans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×