Erlent

Gróður­eldar magnast í Kali­forníu sökum hita­bylgju

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Slökkvilið í Nevada-fylki birti þessa mynd af svokölluðum Beckwourth Complex eldi um helgina.
Slökkvilið í Nevada-fylki birti þessa mynd af svokölluðum Beckwourth Complex eldi um helgina. Truckee meadows fire & rescue

Gróðureldar hafa stórmagnast í nokkrum af Vesturríkjum Bandaríkjanna sökum hitabylgju sem þar gengur nú yfir. Hitamet hafa verið slegin og búist er við áframhaldandi veðursveiflum.

Slökkvilið Kaliforníu berst nú við eldana. Vegum hefur verið lokað og íbúum vissra svæða hefur verið gert að yfirgefa heimili sín. Þá hefur slökkvilið í Nevada-fylki fyrirskipað að eigendur búfjár geri ráðstafanir samstundis.

Elding sem skall á norðurhluta Nevada-fylkis um helgina virðist einnig hafa haft mikil áhrif á útbreiðslu eldsins.

Slökkvilið notar meðal annars flugvélar til þess að sprauta vatni á eldinn að ofan frá. Sú aðferð hefur þó gengið treglega fyrir þær sakir að vatnið virðist þorna áður en það nær til jarðar sökum hitans.

Tveir slökkviliðsmenn létust í Arizona um helgina, þegar flugvél hrapaði í baráttu við eldana.

Slökkvilið í Kaliforníu reynir nú að beisla eldinn en það gengur treglega sökum hitans.AP/Noah Berger

Hitamet hefur verið slegið í Las Vegas en þar hefur hiti náð 47,2 gráðum síðustu daga. Þá hefur hiti í Dauðadalnum svokallaða mælst 54,4 gráður og er það álíka hátt 90 ára gamalt hitamet þar á svæðinu. Sérfræðingar hafa þó lengi dregið eldri mælinguna í efa og því má vera að hitatölur vikunnar hafi verið met.

Aðeins eru nokkrar vikur síðan hættuleg hitabylgja reið yfir Norður-Ameríku, en þar var júní mánuður sá heitasti sem skráður hefur verið.

Sérfræðingar hafa talað um að samhliða hlýnun jarðar megi búast við fleiri óeðlilegum veðursveiflum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×