Erlent

Sendiherrann kallaður heim án tafar eftir að frúin löðrungar í annað sinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í apríl náðist á myndband þegar Xiang réðist að afgreiðslukonu í verslun.
Í apríl náðist á myndband þegar Xiang réðist að afgreiðslukonu í verslun. Skjáskot

Sendiherra Belgíu í Seúl hefur verið kallaður heim „án tafar“ eftir að eiginkona hans réðist að almennum borgara í annað sinn á fjórum mánuðum. Peter Lescouhier átti að snúa til Belgíu seinna í mánuðinum vegna fyrra atviksins en hefur nú verið skipað að fljúga heim hið fyrsta.

Eiginkonan, Xiang Xueqiu, gerðist að þessu sinni sek um að slá borgarstarfsmann sem var að sópa gangstétt í almenningsgarði í Hannam-hverfinu í Seúl snemma á mánudag. Maðurinn rak kústinn óvart í Xiang, sem brást við með því að slá hann tvisvar utan undir.

Maðurinn svaraði fyrir sig með því að hrinda Xiang í jörðina og hringdi svo á lögreglu. Bæði játuðu að hafa lagt hendur á hitt en hvorugt vildi leggja fram kæru. Xiang var færð á spítala vegna bakverkja.

Talsmaður belgíska utanríkisráðuneytisins staðfesti í samtali við CNN að Xiang hefði lent í uppákomu á mánudag en að atburðarásin lægi ekki fyrir. Sendiherranum hefði verið gert grein fyrir því að hann ætti að snúa heim tafarlaust.

Fulltrúi utanríkisráðuneytis Suður-Kóreu sagði málið í rannsókn og að gripið yrði til aðgerða ef niðurstaðan yrði sú að ólöglegt athæfi hefði átt sér stað.


Tengdar fréttir

Sendi­herra kallaður heim eftir að konan hans sló af­greiðslu­konu

Belgíska utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að kalla sendiherra sinn í Suður-Kóreu heim eftir að eiginkona hans réðst á afgreiðslukonu í höfuðborginni Seúl í síðasta mánuði. Eiginkonan bar upphaflega fyrir sig friðhelgi diplómata til að komast hjá ákæru en ráðuneytið féll frá því.

Sendiherrafrú ber fyrir sig friðhelgi vegna löðrungs

Eiginkona belgíska sendiherrans í Suður-Kóreu ber fyrir sig friðhelgi erindreka erlendra ríkja til að komast undan ákæru eftir að hún sást greiða afgreiðslukonu í verslun kinnhest í Seúl. Starfsfólk verslunarinnar hafði grunað hana um hnupl.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×