Erlent

Yfir þrjátíu stiga hiti á norðanverðum Norðurlöndunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Í Banak við Porsangerfjörð í Noregi mældist hitinn 34,3°C 5. júlí 2021.
Í Banak við Porsangerfjörð í Noregi mældist hitinn 34,3°C 5. júlí 2021.

Hitamet hafa fallið í hitabylgju sem gengur nú yfir Skandinavíuskaga og Finnland. Hitinn hefur farið vel yfir þrjátíu gráður í Lapplandi undanfarna daga.

Hæstur mældist hitinn 34,3°C í bænum Banak við Porsangerfjörð í norska hluta Lapplands. Í Utsjoki Kevo nyrst í finnska Lapplandi sýndi hitamælirinn 33,6°C  á sunnudag sem er hæsti hiti sem hefur mælst þar í meira en hundrað ár.

Jari Tuovinen, veðurfræðingur hjá finnsku veðurstofunni, sagði finnska ríkisútvarpinu YLE að það sé afbrigðilegt að hitinn fari yfir 32°C í Lapplandi. Hitabylgjan þar væri vegna viðvarandi háþrýstikerfis sem héldi heitu lofti yfir landinu. Loftið sé upprunið í Mið-Evrópu.

Júnímánuður var almennt heitur á Skandinavíuskaga, sá heitasti frá upphafi mælinga í Finnlandi og í Svíþjóð voru mörg staðbundin hitamet slegin fyrir þann mánuð, að sögn The Guardian

Skoski veðurfræðingurinn Scott Duncan, sem skrifar meðal annars fyrir bandaríska blaðið Washington Post, sagði á Twitter að hitinn í Banak í Noregi sé sá mesti sem hefur mælst ofan við 70. breiddargráðu norður í Evrópu. Hitinn í Skandinavíu í júní og byrjun júlí hafi víða verið 10-15 stigum yfir meðaltali.

Stutt er síðan hitamet féllu í hrönnum í fordæmalausri hitabylgju á vesturströnd Norður-Ameríku. 

Michael Reeder, prófessor í veðurfræði við Monash-háskóla í Ástralíu, segir The Guardian að hitabylgjan þar og sú sem nú gengur yfir Skandinavíu tengist. Hitabeltislægð í Kyrrahafi undan ströndum Japans hafi valdið gárum í lofthjúpnum sem ollu þeim veðuraðstæðum sem sköpuðu hitabylgjuna yfir vestanverðu Kanada og norðvestanverðum Bandaríkjunum.

„Þetta er eins og að plokka gítarstreng. Truflunin dreifði úr sér með skotvindinum. Hún berst til Norður-Ameríku, hún magnast og skapar stórt háþrýstikerfi í miðju lofthjúpsins,“ segir Reeder.

Háþrýstikerfið hafði svo áhrif á loftstrauma yfir Norður-Atlantshafi sem leiddi til hitabylgjunnar yfir Skandinavíuskaga.

„Frá því sjónarhorni tengist mikli hitinn yfir Skandinavíu beint því sem gerðist í Norður-Ameríku,“ segir hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×