Erlent

Vísindamenn uggandi yfir afléttingaráætlun stjórnvalda

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Johnson er sagður munu tilkynna um alsherjarafléttingar á blaðamannafundi í dag.
Johnson er sagður munu tilkynna um alsherjarafléttingar á blaðamannafundi í dag. epa/Neil Hall

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, mun í dag tilkynna um afléttingar á öllum sóttvarnaraðgerðum sem taka munu gildi 19. júlí næstkomandi. Vísindamenn hafa fordæmt fyrirætlanir stjórnvalda, þar sem kórónuveirufaraldurinn virðist vera í vexti.

Alls greindust 24.248 með Covid-19 í gær en 15.953 greindust á sunnudag fyrir viku. Á sumum svæðum í norðausturhluta landsins hefur tilfellum fjölgað um allt að 200 prósent.

Johnson er sagður munu tilkynna á blaðamannafundi í dag að þar sem 86 prósent bresku þjóðarinnar hafi fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni sé tími til kominn að aflétta sóttvarnaraðgerðum og veita einstaklingum frelsi til að ákvarða sjálfir hegðun sína.

Þetta mun meðal annars fela í sér að grímunotkun verður valkvæð nema á heilbrigðisstofnunum, að þeir sem eru fullbólusettir þurfa ekki lengur að sæta einangrun þótt þeir hafi átt samskipti við smitaðan einstakling og að þeir munu ekki lengur þurfa að sæta sóttkví við komuna til landsins eftir ferðalög til svokallaðra „appelsínugulra“ landa.

„Afbrigðaverksmiðjur“

Nýr heilbrigðisráðherra Breta, Sajid Javid, sagði í grein í Mail on Sunday að besta leiðin til að standa vörð um heilsu þjóðarinnar væri aflétting. Aðgerðirnar hefðu haft þau áhrif að heimilisofbeldi hefði aukist til muna og þá hefðu þær haft slæm áhrif á andlega heilsu.

Prófessorinn Stephen Reicher, einn meðlima undirnefndar vísindaráðgjafanefndar stjórnvalda, er meðal þeirra sem hefur gagnrýnt afstöðu Javid og segir ógnvekjandi að heilbrigðisráðherrann virðist líta á Covid-19 eins og hverja aðra flensu.

„Umfram allt er ógnvekjandi að búa við „heilbrigðis“ráðherra sem vill gera sóttvarnir að persónulegu vali þegar lykilskilaboð faraldursins hafa verið að þetta snýst ekki um „Ég“ heldur „Við“.“

Prófessorinn Susan Michie, annar nefndarmanna, tísti að það að leyfa faraldrinum að malla í samfélaginu væri eins og að byggja nýjar „afbrigðaverksmiðjur“.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.