Erlent

Björgunar­að­gerðum hætt í bili og húsið verður rifið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Staðfest er að 24 létust þegar byggingin hrundi en 121 er enn saknað.
Staðfest er að 24 létust þegar byggingin hrundi en 121 er enn saknað. AP/Lynne Sladky

Leit að þeim sem saknað er í rústum fjölbýlishússins sem hrundi í bænum Surfside á Flórída þann 24. júní hefur verið hætt tímabundið, þar sem rífa á það sem eftir stendur af húsinu. Enginn hefur fundist á lífi í rústunum frá því nokkrum klukkutímum eftir að byggingin hrundi.

Staðfest hefur verið að 24 létust eftir að byggingin, sem nefnist Champlain-turn, hrundi. Þá er 121 enn saknað. Ákveðið var að flýta niðurrifi byggingarinnar, sem verður sprengd niður, vegna hitabeltisstormsins Elsu, sem áætlað er að nái vesturströnd Flórída á þriðjudag. Til stóð að niðurrif færi fram seint í júlí, en það gæti farið af stað strax í dag.

Borgarstjóri Miami-Dade-Sýslu, Daniella Cava Levine, segir ákvörðunina um að gera hlé á leitinni ekki til marks um að búið sé að gefa upp vonina um að fólk finnist á lífi. Leit verði haldið áfram en tekin hafi verið ákvörðun um að rífa það sem eftir stendur af húsinu til þess að tryggja öryggi björgunarfólks á svæðinu.

Í ljós hefur komið að verkfræðingar vöruðu við skemmdum á blokkinni fyrir þremur árum. Yfirvöld á Flórída hafa nú tilkynnt að þau ætli að láta fara yfir allar byggingar sem nálgast fjörutíu ára skoðun til þess að tryggja öryggi þeirra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.