Erlent

Málaferli í Vatíkaninu vegna fjárdráttar

Árni Sæberg skrifar
Páfinn gerði Becciu að kardinála árið 2018.
Páfinn gerði Becciu að kardinála árið 2018. Corbis/Getty

Giovanni Angelo Becciu kardináli er einn þeirra tíu sem ákærðir hafa verið vegna fjárdráttar. Málið á rætur sínar að rekja til fjárfestingar Vatíkansins í fasteignaverkefni í Lundúnum.

Kardinálinn er háttsettasti embættismaður Páfagarðs sem ákærður hefur verið fyrir fjárdrátt og brot í starfi.

Becciu neyddist til að segja af sér í september síðastliðnum. Þá var honum gefið að sök að hafa gefið bróður sínum fé úr fjárhirslum Vatíkansins. Fyrir afsögnina var hann einn nánasti ráðgafi Frans páfa.

Becciu átti þátt í umdeildum fasteignaviðskiptum þar sem fé kirkjunnar var notað til þess að fjárfesta í lúxusíbúðum í London. Rannsókn stendur yfir á fjárfestingunum en fé kirkjunnar var veitt í gegnum aflandsfélög og skúffufyrirtæki. Kaupverð íbúðanna var tæplega 25 milljarðar króna.

Kardinálinn heldur fram sakleysi sínu og segist vera fórnarlamb samsæris.

Páfinn skar upp herör gegn fjárglæfrum

Allt frá því að Frans páfi tók við völdum í Vatíkaninu árið 2013 hefur hann einsett sér að koma reglu á fjármál smáríkisins og kirkjunnar.

Páfinn sýndi fram á ætlun sína með því að leyfa ákæru og málarekstur gagnvart Becciu sem var ekki einungis háttsettur innan kirkjunnar heldur einnig náinn vinur páfans.

Sérfræðingar um málefni Vatíkansins telja að með því að leyfa málaferlin hætti páfinn á að fjármál kirkjunnar verði rannsökuð af utanaðkomandi aðilum.

Tveir fyrrum yfirmenn fjármálaeftirlits Vatíkansins eru meðal þeirra tíu sem eru ákærðir í málinu. Ákært er fyrir fjárdrátt, peningaþvætti, fjársvik, fjárkúgun og brot í embætti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.