Erlent

Dómurinn yfir Bill Cos­by ó­giltur

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bill Cosby var dæmdur í þriggja til tíu ára fangelsi fyrir að hafa byrlað og kynferðislega misnotað Andreu Constand, árið 2018.
Bill Cosby var dæmdur í þriggja til tíu ára fangelsi fyrir að hafa byrlað og kynferðislega misnotað Andreu Constand, árið 2018. AP Photo/Matt Slocum

Hæstiréttur Pensylvaníu í Bandaríkjunum hefur ógilt kynferðisbrotadóminn yfir leikaranum Bill Cosby. Dómstóllinn komst að þessari niðurstöðu vegna tæknilegs atriðis sem ekki taldist samræmast reglum dómstólanna í ríkinu.

Cosby hefur setið í fangelsi í rúm tvö ár en hann var dæmdur í þriggja til tíu ára fangelsisvist í fangelsi rétt fyrir utan Fíladelfíu. Hann hafði sjálfur heitið því að afplána öll tíu árin í stað þess að sýna nokkra iðrun vegna glæpsins sem hann var dæmdur fyrir, að hafa kynferðislega brotið á Andreu Constand. Fréttastofa AP greinir frá. 

Cosby, sem er 83 ára gamall, var dæmdur fyrir að hafa byrlað og kynferðislega misnotað Constands, sem var á þeim tíma starfsmaður Temple University, á heimili sínu. Hann var ákærður síðla árs 2015 og var hann handtekinn aðeins nokkrum dögum áður en 12 ára fyrningarfrestur glæpsins rann út.

Hér má sjá Andreu Constand fagna eftir að Cosby var dæmdur árið 2018.AP//Mark Makela

Dómarinn í upprunalega dómsmálinu hafði veitt saksóknurum heimild til að kalla aðra meinta brotaþola til vitnaleiðsla eftir að kviðdómendur reyndust ekki geta komist að niðurstöðu í málinu. Hann hins vegar leyfði fimm ásakendum til viðbótar að bera vitni í málinu en þeir höfðu allir kynnst Cosby á níunda áratugi síðustu aldar.

Hæstiréttur Pennsilvaníu vill þó meina að þeir vitnisburðir hafi haft veruleg áhrif á skoðanir kviðdómenda í málinu þó svo að áfrýjunardómstóll í ríkinu hafi komist að þeirri niðurstöðu að vitnaleiðslurnar hafi verið í lagi. Vitnisburðir ásakenda Cosbys hafi sýnt fram á ákveðið hegðunarmynstur, hvernig hann hafi ítrekað byrlað og misnotað konur. Þá hafi samkomulag fyrrverandi saksóknara í ríkinu við Cosby um að hann ætlaði ekki að ákæra Cosby verið bindandi fyrir saksóknarann sem sótti málið.

Cosby var fyrsti þjóðþekkti einstaklingurinn í Bandaríkjunum til að verða ákærður og sakfelldur í kjölfar fyrstu #MeToo byltingarinnar og gæti þessi ógilding orðið fordæmisgefandi í fleiri slíkum málum. Lögin um persónuleikavitnaleiðslur, það er þegar vitni greina frá svipuðum atvikum og ákærði er ákærður fyrir, eru þó mismunandi eftir fylkjum Bandaríkjanna og þessi ákvörðun Hæstaréttar Pensylvaníu er aðeins fordæmisgefandi í því fylki.


Tengdar fréttir

Krefjast fimm til tíu ára fangelsisdóms yfir Cosby

Sækjendur í máli Bill Cosby, sem fundinn hefur verið sekur um kynferðisofbeldi gegn þremur konum, hafa krafist þess að dómari í málinu dæmi Cosby til fimm til tíu ára fangelsisvistar. Verjendur leikarans segja hann ekki eiga að afplána í fangelsi sökum aldurs.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.