Erlent

Taívan býr sig undir átök við Kína

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Wu segir það heiður að vera skotspónn kínverskra stjórnvalda.
Wu segir það heiður að vera skotspónn kínverskra stjórnvalda. epa/Ritchie B. Tongo

Joseph Wu, utanríkisráðherra Taívan, segir stjórnvöld þurfa að undirbúa sig undir möguleg hernaðarátök. Þetta sagði hann í viðtali við CNN en fyrir um viku síðan flugu 28 kínverskar herþotur og sprengjuflugvélar inn í lofthelgi landsins.

Kínverjar brutu ekki með þessu gegn sjálfræði Taívan né alþjóðlegum lögum en Wu segir taívönsk stjórnvöld ekki geta tekið þá áhættu að sitja aðgerðarlaus hjá. Þau verði að vera undir allt búin.

„Þegar kínversk stjórnvöld neita því ekki að þau myndu mögulega beita valdi og þegar þau eru með heræfingar umhverfis Taívan, þá veljum við að horfast í augu við raunveruleikann,“ sagði Wu.

Stjórnvöld í Kína hafa kallað Wu „grjótharðan aðskilnaðarsinna“ en ummælin voru látin falla í kjölfar þess að Wu sagði á blaðamannafundi að Taívan myndi „berjast til síðasta dags“ ef Kína gerði árás.

CNN hefur eftir Zhu Fenglian, talsmanni skrifstofu málefna Taívan í Kína, að það að stöðva baráttuna fyrir sjálfstæðu Taívan væri nauðsynleg forsenda friðsamlegra samskipta. Wu hefði ítrekað og með hroka talað fyrir sjálfstæði og Kína myndi grípa til allra nauðsynlegra úrræða til að refsa einstaklingum sem gerðust sekir um það.

Wu svaraði þessu í viðtalinu við CNN  og sagði það heiður að vera skotspónn kínverskra stjórnvalda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×